Lögreglumaður dæmdur fyrir að beita fanga ofbeldi

Lögreglumaður hefur verið dæmdur í 60 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa ráðist á fanga í fangageymslu lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu í Reykjavík í maí á síðasta ári. Þetta kemur fram í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur yfir honum sem mbl.is hefur undir höndum. Atvikið náðist á myndband.

Hann er sakfelldur fyrir að fara offari í starfi og gæta ekki lögmætra aðferða, auk þess fyrir að hafa ráðist á fangann og veitt honum áverka. Atlagan var að mati héraðsdóms tilefnislaus og ekkert í fari fangans sem gaf tilefni til hennar. 

Héraðsdómur bendir á að fanginn hafi verið bundinn og varnarlaus í höndum lögreglumannsins og á myndbandi sést að hann reyndi ekki að veita mótspyrnu á nokkurn hátt. Lögreglumanninum var gert að greiða honum 400 þúsund krónur í miskabætur.

Verknaðurinn átti sér stað þegar lögreglumaðurinn átti að flytja karlmann úr fangageymslu á Hverfisgötu og fyrir dómara. Eftir að hann hafði handjárnað manninn fyrir framan búk tók hann um hálsmál á peysu hans, ýtti honum upp að vegg og tók hann svo niður í gólfið þar sem maðurinn lenti á bakinu, setti hægra hné sitt á bringu hans, hélt enn um peysu hans við hálsmál og skellti höfði mannsins tvisvar sinnum í gólfið auk þess að ógna honum með því að halda krepptum hnefa framan við andlit hans.

Þetta kemur fram í dómnum. Því næst dró hann manninn á fætur og skellti honum upp við vegg. Eftir að fórnarlambið hneig niður í gólfið dró lögreglumaðurinn það eftir jörðinni með því að halda í föt þess út fangaganginn og að lyftu í fangageymslu. 

Fanginn hlaut við þetta blæðingu í og undir húð á hnakka, eymsli og væga bólgu yfir liðbandi í hægri ökkla. Auk þess var grunur um rifbot á einu rifi vinstra megin.

Tók þátt í slagsmálum þar sem hnífum var beitt

Fanginn sem fyrir ofbeldinu varð var grunaður um að hafa tekið þátt í slagsmálum þar sem hnífum hafði verið beitt. Var í annarlegu ástandi, valtur á fótum og froðufellandi þegar hann var handtekinn auk þess sem fatnaður hans var blóðugur. 

Ákveðið var af lögreglu að hann skyldi úrskurðaður í gæsluvarðhald og þegar lögreglumaðurinn sótti hann í fangaklefann má sjá á myndbandsupptöku fangann kvitta á blað og fleygja pennanum síðan í gólfið. Lögreglumaðurinn skipar honum að taka hann upp og eftir nokkurt þref gerir hann það.

Eftir að fanginn var kominn í svonefnt flutningsbelti og hendur hans handjárnaðar við það má sjá hvernig fanginn horfir einbeittum svip á lögreglumanninn. Í endurriti segir brotaþoli „fokkings fíflin ykkar“ og rétt á eftir „fokkings ræfill“.

Þá spyr lögreglumaðurinn: „Ertu að segja að ég sé ræfill eða hvað, ha?“ Þá segir fanginn að hann sé bara að tala um lögregluna almennt, ekki viðkomandi lögreglumann. Þá spyr lögreglumaðurinn hann aftur og aftur hvort hann hafi verið að kalla hann ræfil áður en ofbeldið hefst.

Við aðalmeðferð málsins sagðist lögreglumaðurinn hafa haft mikinn vara á sér í viðskiptum við fangann enda hafi hann verið merktur hættulegur í kerfi lögreglunnar. Hann fór til yfirmanns síns daginn eftir atvikið og skýrði frá því sem hafði gerst. Hann viðurkenndi sök og sagði að atferli sínu væri rétt lýst í ákæru að því undanskildu að hann hefði ekki skellt höfði fangans í gólfið heldur búk hans í gólfið og þá fylgdi höfuðið með. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert