„Þetta er mjög bagalegt“

Skólp­dælu­stöðin við Faxa­skjól í Reykja­vík er biluð og flæða því …
Skólp­dælu­stöðin við Faxa­skjól í Reykja­vík er biluð og flæða því nú á hverri sek­úndu 750 lítr­ar af óhreinsuðu skólpi út í hafið. mbl.is/Golli

Umhverfisstjóri Orkuveitu Reykjavíkur segir það mjög bagalegt að óhreinsað skólp renni út í sjó við Faxaskjól í Reykjavík. Hart sé hins vegar unnið að viðgerð við erfiðar aðstæður. Fulltrúar frá heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur eru nú á leið niður að fjörunni til að taka sýni og meta aðstæður.

Eins og greint var frá í gær er skólpdælustöðin við Faxaskjól biluð og flæða því á hverri sekúndu 750 lítrar af óhreinsuðu skólpi út um neyðarlúgu og í hafið. Hefur þetta verið staðan undanfarna ellefu sólarhringa, en viðgerð sem lauk 19. júní sl. skilaði ekki tilætluðum árangri. Neyðarlúgan var þó lokuð í nótt.

Hólmfríður Sigurðardóttir, umhverfisstjóri Orkuveitu Reykjavíkur segist vonast til þess að viðgerð fari að ljúka, en mikilvægt sé þó að tryggja öryggi starfsmanna. „Okkar starfsmenn hafa verið að vinna hörðum höndum við mjög erfiðar aðstæður í þessari dælustöð. Þetta hefur gengið brösuglega vegna aðstæðnanna,“ segir hún. „En það er auðvitað mjög bagalegt að þetta taki svona langan tíma.“

Frumniðurstöður ljósar eftir sólarhring

Að sögn Svövu Steinarsdóttur, heilbrigðisfulltrúa hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, eru fulltrúar nú á leið í fjöruna til að taka sýni. Frumniðurstöður ættu að verða ljósar eftir sólarhring. Þá verður einnig metið hvort tilefni sé til þess að fara í hreinsiaðgerðir á svæðinu.

Spurð um það hvers vegna ekki hafi verið tilkynnt um skólpmengunina fyrr segir Svava að þar sem saurgerlar hafi verið innan ásættanlegra marka við sýnatöku í júní hafi ekki þótt tilefni til að tilkynna um mengunina til almennings. „En við getum beint því til fólks núna þar sem þetta ástand er búið að vara svona lengi að gæta að því að halda sig fjarri dælustöðinni,“ segir hún.

Samkvæmt reglugerð nr. 798/1999 skal fjöldi hitaþolinna kólíbaktería eða saurkokka í a.m.k. 90% tilfella vera undir 100 pr. 100 ml utan þynningarsvæðis miðað við lágmark 10 sýni við fjörur. Sýnin sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur tók í júní voru yfir viðmiðunarmörkunum en innan skekkjumarka að sögn Svövu.

Unnið er að viðgerð á svæðinu.
Unnið er að viðgerð á svæðinu. mbl.is/Golli

„Óvenjulegt ástand“

„Þetta gerist ekki oft til allrar lukku en getur gerst ef bilun verður í dælum eða mikið álag verður á kerfinu, til dæmis miklar rigningar,“ segir Svava en bætir við að búnaðurinn sé hannaður til að standast slíkt. „En þetta er óvenjulegt ástand þar sem neyðarlúgan hefur sífellt verið að bila yfir þetta tímabil.“

Spurð hver áhrifin séu af gerlamengun segir Svava hana aldrei vera æskilega. „Þeir geta valdið sjúkdómum ef fólk er til dæmis veikt fyrir eða fær gerlana í sár. Við forðumst þessa gerla eins og við getum og erum með eftirlit við baðstaði, strandlengjuna og í neysluvatni,“ segir hún. Heilbrigðiseftirlitið er með eftirlit á tólf sýnatökustöðum við fjöruna, og að sögn Svövu er sýnatökustaður við Ægisíðuna venjulega með mjög góð gildi.

Lengsta og alvarlegasta bilun frá upphafi

Bilunin sem um ræðir er sú lengsta og alvarlegasta á skólphreinsikerfinu frá upphafi, en hreinsistöðvarnar voru settar upp í kringum aldamót. Tvær stórar hreinsistöðvar eru á höfuðborgarsvæðinu; við Klettagarða og Ánanaust. Í þá síðarnefndu kemur skólp úr suður- og vesturhluta borgarinnar, meðal annars frá dælustöðinni sem nú er biluð.

Í dælustöðina kemur skólp úr stórum hluta Breiðholts, Árbæ, Norðlingaholti, Garðabæ og Kópavogi en vegna bilunarinnar rennur það nú út í sjó. Við eðlilegar aðstæður er skólpinu dælt hreinsuðu 4 kílómetra út í hafið á 30 metra dýpi.

Vegna bilunarinnar var ákveðið að hafa neyðarlúgu opna og láta skólpið streyma út í sjó svo ekki væri hætta á því að það færi inn í kerfið og flæddi upp niðurföll eða inn til fólks.

Neyðarlúgan var lokuð í nótt.
Neyðarlúgan var lokuð í nótt. mbl.is/Golli

Mælir ekki með fjöruferð með börn á svæðinu

„Blessunarlega erum við ekki vön því að sjá skólp í fjörunum og þegar svona bilanir verða kemur það eðlilega illa við okkur því ástandið hefur verið gott,“ segir Hólmfríður. „Það er eitt jákvæðasta umhverfismál sem gripið hefur verið til að koma upp skólphreinsistöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Víða um land eru þessi mál í miklum ólestri, en auðvitað viljum við ekki að það sé saurgerlamengun í okkar umhverfi.“

Spurð hvort ekki hefði verið hægt að senda skólpið í hreinsistöðina í Klettagörðum í stað þess að láta það flæða út í sjó segir Hólmfríður enga tengingu vera á milli hreinsistöðvanna. „Væri hún til staðar hefði það ekki hjálpað í þessu tilviki þar sem endastöð skólpsins sem fer í gegnum dælustöðina í Faxaskjóli er í Ánanaustum og sú hreinsistöð er í fullum rekstri,“ segir hún.

En er óhætt að fara með börn niður að fjörunni? „Ég mæli ekki með því að foreldrar fari með börnin sín í fjöruferð þar sem skólp rennur út í sjó,“ segir Hólmfríður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert