Vörslumaður öræfanna

„Vitund og áhugi á umhverfismálum hefur alltaf verið nærri mér,“ …
„Vitund og áhugi á umhverfismálum hefur alltaf verið nærri mér,“ segir Kári á heimili sínu þar sem hann hefur fallegt Herðubreiðarmálverk eftir Stefán Jónsson frá Möðrudal á stofuveggnum. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Líðandi sumar er það 28. sem Kári Kristjánsson stendur vaktina sem gæslumaður náttúru Íslands. Allt frá árinu 1989 hefur hann verið við störf úti á mörkinni; fyrst í ellefu sumur sem landvörður í Öskju, Herðubreiðarlindum og Hvannalindum og svo þjóðgarðsvörður í Jökulsárgljúfrum.

Seinna hafði hann umsjón með svæði sunnan jökla og Lakagígum, þá með aðsetur á Kirkjubæjarklaustri. Svo áfram sem starfsmaður Vatnajökulsþjóðgarðs frá stofnun hvar Kári starfar enn. Eftirlit og eignaumsjón á hálendi er formleg lýsing á starfi hans nú; að fara vítt og breitt um þennan víðfeðma þjóðgarð til að sinna tilfallandi málum og framkvæmdum.

Umgangast landið af virðingu

„Vitund og áhugi á umhverfismálum hefur alltaf verið nærri mér. Þetta eru viðhorf sem ég meðtók strax sem barn og vandist að lifa samkvæmt,“ segir Kári Kristjánsson, sveitapiltur frá bænum Riftúni í Ölfusi. „Móðir mín, Sigfríður Einarsdóttir, hafði mikinn áhuga á öllu í náttúrunni og af henni lærði ég að þekkja blóm og fugla og eins að landið væri auðlind sem umgangast skyldi af virðingu. Í starfi mínu sem landvörður hef ég oft greint þessi viðhorf best meðal fólks sem kemur af landsbyggðinni eða hefur verið í sveit. Það er einfaldlega öðrum betur meðvitað um náttúruna, gögn hennar og gæði.“

Meðal þeirra sem þekkja til er Kári Kristjánsson eins konar goðsögn; vörslumaður hálendisins og ódeigur við að segja sína skoðun þegar honum þykir gengið á náttúru landsins eða spjöll unnin. „Ætlunin var að prófa landvörsluna kannski eitt sumar en mér líkaði strax vel og því varð ekki aftur snúið. Ég lærði trésmíði og verkkunnátta úr faginu hefur oft komið sér vel á fjöllum, sérstaklega nú á seinni árum þegar verið er að opna skála fyrir sumarið, setja upp dælur, vatnsveitur, gangsetja rafstöðvar og símkerfi, koma upp nýrri aðstöðu og slíkt, sem eru mín helstu verkefni,“ segir Kári og heldur áfram:

„Ég er núna í seinni tíð að mestu kominn út úr hefðbundnum landvörslustörfum, eins og að sjá um fræðslu, rukka fyrir tjaldsvæði, vísa til vegar eða standa í ströggli við fólk sem ekur utan vega. Mér finnst afskaplega sárt þegar slíkt gerist, hvort sem það er hugsunarleysi eða ásetningur.“

Leiðsögumönnum séu sett skilyrði

Sú breyting er eftirtektarverð, segir Kári, að ferðamenn sem áður komu til Íslands og hann hitti inni á hálendinu voru mjög gjarnan fólk sem var vel lesið, þekkti til náttúru og sögu og var hingað komið til þess að bæta við þá þekkingu sína. „Svona fólk hittir maður sjaldnar í dag og ófáir virðast varla vita hvar þeir eru staddir. Það finnst mér að einhverju marki geta skýrt fjölgun slysa sem ferðamenn lenda í. Þá er takmörkuð ef nokkur menntun erlendra leiðsögumanna sem eru við störf á Íslandi umhugsunarverð. Þar verða stjórnvöld að setja einhver skilyrði.“

Ganga grimmt að náttúrunni

Með fjölgun erlendra ferðamanna til landsins hefur álag á náttúruna aukist mikið, segir Kári Kristjánsson. Æ fleiri leggja líka leið sína upp á hálendið, en þó ekki í sama mæli, og fjölgunin er á vinsælustu stöðunum niðri í byggð.

„Sem betur fer; hálendið myndi ekki bera slíkt. Margir vilja ganga mjög grimmt að náttúrunni, jafnvel stöðum sem eru í mikilli hættu. Innan Vatnajökulsþjóðgarðs get ég til dæmis nefnt Öskju, Hvannalindir og Lakagíga. Þar má ekkert út af bregða, svo og í Fjarðarárgljúfri sem er skammt vestan við Kirkjubæjarklaustur. Aðrir staðir bera álagið miklu betur, til dæmis Eldgjá,“ segir Kári.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: