Kröfum þeirra Jóhannesar Rúnars Jóhannssonar og Ástráðs Haraldssonar, sem báðir sóttust eftir embætti Landsréttardómara og voru meðal þeirra sem dómnefnd um hæfni umsækjenda setti meðal 15 hæfustu en voru að lokum ekki skipaðir, hefur verið vísað frá Héraðsdómi Reykjavíkur. Ástráður ætlar að kæra úrskurðinn til Hæstaréttar.
Báðir stefndu ríkinu vegna ákvörðunar dómsmálaráðherra að leggja ekki til að þeir yrðu skipaðir í stöðu dómara við Landsrétt og fóru fram á að viðurkenndur yrði réttur þeirra til skaðabóta frá ríkinu og að þeim yrði greiddar ein milljón á mann í miskabætur.
Fór ríkið fram á að ógildingakröfunni og viðurkenningarkröfunni yrði vísað frá og úrskurðaði dómurinn um að gera það. Aftur á móti var ekki farið fram á að vísa miskabótakröfunni frá og verður það atriði tekið fyrir síðar.
Fram kemur í úrskurði héraðsdóms að ekki verði dregin sú ályktun af orðalagi laga um Landsrétt og lögskýringagögnum að vikið hafi verið frá þeirri óskráðu grundvallarreglu íslensks stjórnsýsluréttar að þeim handhafa opinbers valds sem skipar í embætti beri að velja hæfasta umsækjandann í embættið.
„Þá verður heldur ekki séð að með þeim hafi verið létt af ráðherra þeim skyldum sem leiða af sömu grundvallarreglu stjórnsýsluréttarins um undirbúning stöðuveitingar og mat á hæfni umsækjenda. Þannig verður niðurstaðan um val á þeim einstaklingi sem veitingarvaldshafinn telur hæfastan að byggjast á heildstæðum samanburði á framkomnum umsóknum með tilliti til þeirra krafna sem lög gera til þess einstaklings sem gegna má embættinu og þeirra sjónarmiða sem val á umsækjendum byggist á,“ segir jafnframt í dóminum.
Dómurinn tekur jafnframt fram að ráðherra fari ekki einn með val til að ákveða hverjir skuli skipaðir í embætti heldur sé því deilt með Alþingi. Ráðherra sé þó einn um að geta borið fram tillögur og Alþingi geti ekki hlutast til um það eða tilnefnt annan.
Fram kemur að sækjendur í málinu hafi sett ógildingakröfuna fram á þann hátt að ákvörðun ráðherra yrði ógild eða til vara að ógilda ákvörðun um að leggja til við forseta Íslands að þeir verði ekki meðal þeirra 15 sem voru skipaðir.
Dómurinn tekur fram að ef afstaða sé tekin til þessarar kröfu verði að hafa í huga að það feli í sér að réttaráhrif ákvörðunar falla brott án þess að nokkuð annað komi í staðinn. Þar sem litið sé á skipun dómaranna sem 15 sjálfstæð stjórnsýslumál og ekki sé farið fram á að ógilda aðrar ákvarðanir ráðherra sé því ekki ljóst hver yrði niðurstaðan.
„Í ljósi þess sem að framan er rakið verður ekki séð að það myndi leiða til skýrrar og afgerandi niðurstöðu um sakarefni málsins ef fallist yrði á fyrstu dómkröfu stefnanda og að með því fengist efnisleg úrlausn um það álitaefni sem málsaðilar deila um. Þannig myndu ákvarðanir ráðherra, bæði hvað varðar tillögu hans til Alþingis og forseta Íslands, svo og ákvörðun Alþingis um staðfestingu tillögu ráðherra um skipun 15 dómara Landsréttar, allar halda áfram gildi sínu svo lengi sem dómstólar fella þær ekki úr gildi.
Í samræmi við framangreint er það niðurstaða dómsins að fyrsta dómkrafa stefnanda, eins og hann gerði nánar grein fyrir henni í málflutningi og stefnu málsins, sé svo andstæð meginreglum réttarfars um skýran málatilbúnað að ekki verði lagður á hana dómur. Af þeim sökum verður ekki komist hjá því komist að vísa henni frá dómi,“ segir í lok úrskurðarins.
Samkvæmt frétt Rúv ætlar Ástráður að kæra niðurstöðu héraðsdóms til Hæstaréttar.