Óvissa eftir úrskurð „afar óþægileg“

Hótelið stuttu eftir opnun þann 1. júlí síðastliðinn.
Hótelið stuttu eftir opnun þann 1. júlí síðastliðinn. Ljósmynd/Fosshótel

Rekstraraðilar Fosshótelsins í landi Grímsstaða í Skútustaðahreppi harma þá stöðu sem upp er komin í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá rekstraraðilum hótelsins.

„Óvissan sem skapast við þennan úrskurð er afar óþægileg fyrir alla hlutaðeigandi. Nauðsynlegt er að fá úr henni skorið sem fyrst,“ segir í yfirlýsingunni, en úr­sk­urðar­nefnd um­hverf­is- og auðlinda­mála ógilti í gær ákvörðun Skipu­lags­stofn­un­ar um að hót­el­bygg­ing Foss­hót­ela á Gríms­stöðum við Mý­vatns­sveit skyldi ekki háð mati á um­hverf­isáhrif­um.

Kæran fresti ekki áhrifum þegar tekinna ákvarðana

Þor­steinn Gunn­ars­son, sveit­ar­stjóri Skútustaðahrepps, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að umhverfismat væri fyrst og fremst um­fjöll­un um um­hverf­isáhrif fram­kvæmda, en það væri síðan sveit­ar­fé­lags­ins að ákveða um bygg­ing­ar­leyfi. Um­hverf­is­mat gæti þannig ekki orðið til þess að til­tek­in fram­kvæmd væri bönnuð.

í yfirlýsingu frá rekstraraðilum hótelsins kemur fram að það sé hafið yfir vafa að lögum samkvæmt fresti kæra til úrskurðarnefndar, eins og sú sem Landvernd lagði fram, ekki áhrifum þeirra ákvarðana sem Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun, skipulags- og byggingayfirvöld á svæðinu, heilbrigðisnefnd og önnur stjórnvöld, sem að málum sem þessum koma, hafi þegar tekið. Þá hafi sérstök krafa Landverndar um að framkvæmdir yrðu stöðvaðar, sem fram kom á fyrri stigum, ekki verið tekin til greina af úrskurðarnefndinni.

Ljósmynd/Fosshótel

„Eftir að ákvörðun Skipulagsstofnunar lá fyrir um að framkvæmdin væri ekki háð umhverfismati, hafa öll tilskilin leyfi verið gefin út fyrir byggingu hótelsins og rekstri, eins og lög gera ráð fyrir. Framkvæmda- og rekstraraðilar höfðu því staðfestingu allra til þess bærra aðila um að uppbyggingin og starfsemin væri á lögmætum grundvelli,“ segir í yfirlýsingunni.

„Rétt er að taka fram að úrskurðurinn felur ekki sjálfkrafa í sér að framkvæmdin fari í umhverfismat heldur snýr hann eingöngu að málsmeðferðinni. Skipulagsstofnun þarf nú að fara í gegnum úrskurðarferlið að nýju. Niðurstaðan gæti orðið hin sama og áður og því er of snemmt að taka afstöðu til framhaldsins nú, þar sem endanleg niðurstaða liggur ekki fyrir.“

Haft er eftir Davíð Ólafssyni framkvæmdastjóra Íslandshótela, að full samstaða ríki um að fara þurfi með sérstakri gát í framkvæmdum í nágrenni Mývatns. Ýmsar áskoranir hafi opinberast í tengslum við uppbyggingu ólíkra þjónustuaðila í Skútustaðahreppi samhliða aukinni sókn ferðamanna þangað.

„Ég tek fyllilega undir þau orð Landverndar að náttúran skuli njóta vafans enda tel ég að Fosshótelið á Mývatni sé dæmi um hótel sem hafi lágmarksáhrif á umhverfi sitt og geti orðið fyrirmynd annarra hótela á landsbyggðinni hvað það varðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert