„Maður við mann alla leiðina“

Gríðarlegur fjöldi leggur leið sína inn í Reykjadal á degi …
Gríðarlegur fjöldi leggur leið sína inn í Reykjadal á degi hverjum. Síðustu ár hefur verið unnið að uppbyggingu á svæðinu til þess að mæta aukinni aðsókn. Byggðar hafa verið brýr, pallar og vegir lagfærðir. mbl.is/Golli

Heiti lækurinn í Reykjadal nýtur gríðarlegra vinsælda meðal ferðamanna sem leggja leið sína í dalinn allt árið um kring. Miklar breytingar hafa orðið á aðstöðunni til þess að halda í við aukið álag á svæðinu.

Þegar blaðamaður og ljósmyndari mbl.is heimsóttu dalinn í vikunni mættu þau fjölda ferðamanna víða að úr heiminum. Flestir þeirra sem blaðamaður ræddi við voru að koma þangað í fyrsta sinn. Ungt par frá Austuríki lýsti yfir undrun sinni á því hversu heitt vatnið hafi verið en slíkt höfðu þau aldrei upplifað áður.

Tveir Svíar voru á leiðinni upp í dalinn þegar blaðamaður stoppaði þá. Var annar þeirra að koma þangað í annað sinn og sagðist vera hissa hversu mikið svæðið hafi breyst á örfáum árum.

Bílastæðið nær ekki utan um fjöldann

Helga Kristjánsdóttir hjá Hveragerðisbæ segir gríðarlegan fjölda ferðamanna ganga inn í Reykjadal á degi hverjum. „Það er maður við mann alla leiðina upp eftir á mesta álagstíma,“ segir hún.

Verið sé að vinna í því að koma upp almennilegu bílastæði og aðstöðu fyrir þá sem leggja ferð sína um dalinn en það litla malarplan sem nú er á staðnum rúmar ekki alla bílana og leggur fólk því meðfram veginum. „Á góðum degi ná bílarnir nánast upp allan veginn,“ segir Helga.

Það litla malarplan sem nú er á staðnum rúmar ekki …
Það litla malarplan sem nú er á staðnum rúmar ekki alla bílana og leggur fólk því meðfram veginum. „Á góðum degi ná bílarnir nánast upp allan veginn,“ segir Helga. mbl.is/Golli

Laga göngustíga og byggja brýr

Reykjadalurinn tilheyrir sveitarfélaginu Ölfusi en í samvinnu við það eru Hveragerðisbær, Landbúnaðarháskólinn að Reykjum og Eldhestar að vinna saman að uppbyggingu á svæðinu. Til verksins hefur fengist styrkur frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.

Helga segir að síðustu ár hafi þau verið að vinna í því verkefni að laga göngustíginn og byggja brýr, hestagerði og fleira. „Hann er orðinn mikið betri göngustígurinn en hann var en hann hefði aldrei þolað þennan fjölda sem er þessa dagana ef hann hefði ekki verði lagfærður.“

Sveitarfélagið Ölfus, Hveragerðisbær, Landbúnaðarháskólinn að Reykjum og Eldhestar vinna saman …
Sveitarfélagið Ölfus, Hveragerðisbær, Landbúnaðarháskólinn að Reykjum og Eldhestar vinna saman að uppbyggingu á svæðinu. mbl.is/Golli

Þarf landvörð á svæðið

Meðal þess sem hefur verið gert er að lagfæra göngustíga, byggja brú yfir á sem áður var stikluð og yfir einn hver sem farinn var að brjóta land í kringum sig. Þá hafa verið byggðir timburpallar við lækinn þar sem hægt er að skipta um föt og geyma föt í þurru á meðan fólk baðar sig.

Helga segir að þrátt fyrir að Reykjadalurinn tilheyri ekki Hveragerði standi hann íbúum þar mjög nærri enda fara flestallir sem þangað ætla í gegnum bæinn. Þau geri sitt besta til þess að halda honum snyrtilegum en helst þyrfti að vera á staðnum landvörður sem hefði yfirsýn með svæðinu.

Ferðamennirnir voru vel klæddir í júlíblíðunni. Á bak við þá …
Ferðamennirnir voru vel klæddir í júlíblíðunni. Á bak við þá má sjá bílaröðina sem myndast á veginum. mbl.is/Golli
Heiti lækurinn í Reykjadal nýtur gríðarlegra vinsælda meðal ferðamanna sem …
Heiti lækurinn í Reykjadal nýtur gríðarlegra vinsælda meðal ferðamanna sem leggja leið sína í dalinn allt árið um kring. mbl.is/Golli
mbl.is