Vinna að endurreisn án formannsins

Páll Rúnar Pálsson, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna, segir stefna í að útgjöld …
Páll Rúnar Pálsson, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna, segir stefna í að útgjöld samtakanna árið 2017 verði umtalsvert hærri en árið 2015, þegar þau námu 71,7 milljónum króna. mbl.is/Ómar

„Ég bara veit það ekki,“ svarar Stefán Hrafn Jónsson, varaformaður stjórnar Neytendasamtakanna, spurður að því hvaða störfum formaðurinn, Ólafur Arnarson, gegni fyrir samtökin um þessar mundir. Stjórn og starfsmenn hafa lýst yfir vantrausti á Ólaf og vinna að því að bæta fjárhag samtakanna án aðkomu formannsins.

Stjórn Neytendasamtakanna birti tilkynningu í gær þar sem greint var frá því að ráðast þyrfti í aðgerðir til að bjarga samtökunum en áður hafði öllum starfsmönnum verið sagt upp vegna alvarlegrar fjárhagsstöðu. Samkvæmt stjórn má rekja hina bágu stöðu til „óhóflegra útgjalda“ sem Ólafur hefur stofnað til án aðkomu stjórnar.

„Við erum í fyrsta lagi að reyna að draga úr öllum útgjöldum og það fyrsta er að hafa ekki formann á launum,“ segir Stefán spurður að því hvað felst í þeim aðgerðum sem nú standa yfir. „Það er ekkert sjálfgefið í félagasamtökum að hafa formann á launum, þó að vissulega sé það ekkert óeðlilegt.“

Þá sé búið að segja upp rekstrarleigu á bifreið þeirri sem tekin var á leigu fyrir Ólaf og búið að setja smáforritið Neytandinn á bið. Fyrir liggi að ráðast í fjáröflun og fjölgun félagsmanna en Stefán segir yfirstandandi deilur innan samtakanna ekki hafa haft merkjanleg áhrif á félagafjöldann.

Launin, bifreiðin og smáforritið

Samkvæmt rekstrarreikningi Neytendasamtakanna fyrir árið 2015 námu rekstrargjöld þeirra 71,7 milljónum króna það árið en 72,8 milljónum árið 2014. Tekjurnar árið 2015 námu 68,1 milljón og 70,3 milljónum árið 2014.

„Þú sérð að þetta er það lítil velta að það þarf ekki stórar upphæðir til að setja þetta í ójafnvægi,“ segir Stefán beðinn um að setja málið í fjárhagslegt samhengi.

Þau útgjöld sem sögð eru tilkomin vegna Ólafs eru m.a. fyrrnefnd bifreið og smáforrit, og laun Ólafs sem formanns og framkvæmdastjóra, sem Stefán segir hafa verið 50% hærri en laun Jóhannesar Gunnarssonar, sem gegndi formennsku í 26 ár. 

Ólafur Arnarson, formaður Neytendasamtakanna. Stefán segir Ólaf hafa verið í …
Ólafur Arnarson, formaður Neytendasamtakanna. Stefán segir Ólaf hafa verið í vörn en ekki sagt alla söguna. Til dæmis hafi hann vísað til fundargerðar þar sem stjórnin samþykkti útgjöld vegna bifreiðarinnar en ekki sagt frá ákvörðun milli funda þar sem skýr fyrirvari var settur um að samtökin hefðu efni á bílaleigunni. Þá hafi stjórnin ekki vitað af útgjöldunum vegna smáforritsins þegar hún fjallaði um bílinn. mbl.is/Golli

„Strúktúrinn er þannig að þetta eru bara skammtímaskuldir og skammtímaeignir, þannig að þetta er bara rekstrarfé sem er að renna hér í gegn; engar langtímaskuldbindingar eða eitt eða neitt,“ segir Páll Rúnar Pálsson, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna, um fjárhaginn.

Páll er einn sjö starfsmanna skrifstofu samtakanna, sem nú hefur verið sagt upp störfum.

Hann segir kostnað samtakanna vegna áðurnefnds smáforrits munu nema 6,1 milljón króna árið 2017. „Svona samtök þola voða lítið svona sveiflur í fjárhagnum því við erum bara með þessi félagsgjöld og örfáa þjónustusamninga,“ segir Páll.

Samskiptin við formanninn „óþægilega lítil“

Páll, sem áður var fjármálastjóri samtakanna, segir kaupmátt tekna Neytendasamtakanna hafa minnkað. Þá hafi þjónustusamningar þeirra við ríkið, sem í dag eru tveir, rýrnað.

Unnið sé að aðgerðaáætlun, sem miði m.a. að því að bæta sjóðsstöðuna þegar fram í sækir.

mbl.is spurði Stefán varaformann að því hvort stjórnin ætti í samskiptum við formanninn, nú þegar stjórn og starfsmenn hefðu lýst á hann vantrausti og ynnu að því að bjarga fjárhagsstöðu samtakanna án hans.

„Frekar litlum og eiginlega óþægilega litlum,“ svaraði Stefán. „Hann mætti á síðasta stjórnarfund, sem reyndar var rafrænn, og fór mjög snemma af þeim fundi.“

Umræddur fundur fór fram í síðustu viku.

„Við erum búin að vera að eyða einhverjum mánuðum í að reyna að ná saman og það hefur bara ekkert gengið,“ segir Stefán. „Þannig að nei, við erum svolítið... Hann hefur ekki verið með. Auðvitað er hann að gera eitthvað. Þangað til nýlega var hann starfandi starfsmaður samtakanna.“

En hvað er hann þá að gera fyrir samtökin?

„Ég bara veit það ekki. Við erum náttúrlega búin að leysa hann undan starfsskyldum. Við teljum að það sé betra að ná jafnvægi í fjármálunum án hans, sérstaklega í ljósi þess hvað hann hefur farið geyst í útgjöldum.“

Boðað hefur verið til félagsfundar 17. ágúst, þar sem farið verður yfir stöðuna. Báðir sögðust Stefán og Páll gera ráð fyrir að þar yrði eitthvað gefið upp um fjárhagslega hlið málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert