Ólíklegt að kynferðisbrotamaður yrði skipaður réttargæslumaður

mbl.is

Það er ekkert sem beinlínis hindrar það með lögum að lögmaður, sem hefur hlotið dóm fyrir kynferðisafbrot en hefur endurheimt lögmannsréttindi sín, sé skipaður réttargæslumaður þolanda kynferðisofbeldis. Aftur á móti eru ákveðnir varnaglar í kerfinu sem ættu að koma í veg fyrir slíkt. Þetta segir dósent við lagadeild Háskóla Íslands.

„Sömu reglur gildi um tilnefningu, skipun og hæfi réttargæslumanna og verjenda,“ segir Kristín Benediktsdóttir, dósent í réttarfari.

Það eru aðeins lögmenn sem geta orðið réttargæslumenn en lögregla tilnefnir réttargæslumenn og dómari skipar þá eftir að mál er höfðað. Áður en það gerist skal gefa brotaþola sjálfum kost á að benda á lögmann en við skipun eða tilnefningu réttargæslumanns skal að jafnaði fara að ósk brotaþola.

Yngri en 18 ára alltaf skipaður réttargæslumaður

Samkvæmt lögum um meðferð sakamála er lögreglu skylt að tilnefna réttargæslumann ef rannsókn máls beinist að kynferðisafbroti og brotaþoli óskar þess. Ávallt skal þó tilnefna réttargæslumann ef brotaþoli hefur ekki náð 18 ára aldri þegar rannsókn hefst skv. 41. grein laganna. Skyldan nær einnig til ákveðinna annarra brota ef brotaþoli óskar réttargæslumanns. Að auki er lögreglu heimilt að tilnefna brotaþola réttargæslumann þótt hann hafi ekki óskað þess ef hann er ekki fær um að gæta hagsmuna sinna sem skyldi við rannsókn slíkra mála.

Þegar skilyrði eru til þess að tilnefna réttargæslumann skal það gert jafnskjótt og tilefni gefst. Tilnefning fellur sjálfkrafa úr gildi við skipun réttargæslumanns en þegar mál hefur verið höfðað er það dómari sem skipar réttargæslumann.

Þá er brotaþola heimilt að ráða lögmann á sinn kostnað til að gæta hagsmuna sinna en lögmaður sem brotaþoli hefur ráðið án atbeina dómara eða lögreglu hefur sömu réttindi og skyldur og réttargæslumaður eftir því sem við á. Við skipun eða tilnefningu réttargæslumanns skal að jafnaði fara að ósk brotaþola en dómari og lögregla geta neitað að skipa eða tilnefna þann sem óskað er eftir.

Varnaglar til staðar

„Það er ekkert í lögunum sem beinlínis bannar það en lögregla þarf að gæta að því að það sé einhver tilnefndur sem er góður og vel hæfur,“ segir Kristín, spurð hvort lögmaður, sem hefur hlotið dóm fyrir kynferðisafbrot en hefur endurheimt lögmannsréttindi sín, geti verið tilnefndur eða skipaður réttargæslumaður fórnarlambs kynferðisofbeldis.

„Það að einhver sé tilnefndur eða skipaður, sem er dæmdur kynferðisbrotamaður, er afar ólíklegt að myndi gerast,“ segir Kristín. „Það eru náttúrulega ákveðnir varnaglar í tengslum við tilnefningu lögreglu og skipun dómara,“ bætir hún við.

Í grunninn geti brotaþoli þó alltaf valið lögmann. Erfiðara gæti verið að bregðast við því ef brotaþoli velur sér lögmann, án þess að vita að viðkomandi hafi verið fundinn sekur um kynferðisafbrot. „Auðvitað getur komið upp sú staða að þeir viti það ekki,“ segir Kristín. „En þá bæri lögreglu skylda til að upplýsa um það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert