Leitað verður á ákveðnum einstaklingum

Herta eftirlitið snýr að raftækjum farþega. Þau verða nú skönnuð, …
Herta eftirlitið snýr að raftækjum farþega. Þau verða nú skönnuð, hjá þeim sem verða teknir í leit, við brottfararhliðið. AFP

Hert eftirlit með raftækjum farþega frá Íslandi til Bandaríkjanna felur bæði í sér tilviljanakennda leit og einstaklingsbundna. Reglur um leitina, á hverjum skuli leitað og svo framvegis, koma frá bandarískum stjórnvöldum. 

Þetta segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia. Krafan um hert eftirlit kemur frá bandarískum stjórnvöldum og er lögð á flugfélög sem fljúga beint til landsins, þ.e. Icelandair, WOW air og Delta. Áður leit út fyrir að flugfélögin myndu sjálf annast hið aukna eftirlit en Isavia hefur nú boðið verkið út og mun Öryggismiðstöðin sinna því, líkt og fram kom í Morgunblaðinu í dag. 

„Bandaríkin setja kröfur á flugrekendur um þetta aukna eftirlit,“ segir Guðni um framkvæmdina. „Þeir hafa verið með þetta í undirbúningi, svo var á endanum ákveðið nákvæmlega fyrirkomulagið og gefinn ákveðinn frestur til að setja þetta í gang. Svo fer þetta af stað 18. júlí.“

Guðni segir að hugmyndir Bandaríkjamanna um hert flugvallaeftirlit hafi komið fram fyrir nokkru. „Svo er það bara núna á síðustu vikum sem það fór að skýrast hvernig fyrirkomulagið verður.“

Isavia hefur því verið í undirbúningsferli með flugfélögunum um hríð. 

Kröfurnar settar á flugfélögin

Spurður hvort hægt sé að neita því að framkvæma aukið eftirlit sem þetta svarar Guðni að þá fengju flugfélögin væntanlega ekki að fljúga til Bandaríkjanna. Hann ítrekar hins vegar að kröfurnar séu settar á flugfélögin, ekki flugvellina, og því hefði Isavia ekki þurft að taka þátt í framkvæmdinni. Það hafi hins vegar verið lendingin enda stofnunin þegar að sinna slíkri þjónustu á Keflavíkurflugvelli. „Eftir samtal við flugrekendur sem fljúga til Bandaríkjanna var ákveðið að það væri best að flugvöllurinn byði upp á þessa þjónustu.“

Langar biðraðir geta myndast í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Nú bætist …
Langar biðraðir geta myndast í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Nú bætist við hert eftirlit með raftækjum þeirra sem eru að fara til Bandaríkjanna. Ekki er vitað hvort og þá hversu miklum töfum það mun valda. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

En hvernig leit er um að ræða?

Guðni segir að hið aukna eftirlit snúi eingöngu að rafbúnaði; fartölvum, myndavélum og slíku, ekki tíðari líkamsleit á farþegum. 

En þegar þið fáið þessar reglur frá bandarískum yfirvöldum, er eitthvað tekið fram hvort leita eigi fremur á fólki frá ákveðnum löndum en öðrum?

„[Leitin] er annars vegar algjörlega tilviljanakennd og hins vegar er það þannig að það kemur til flugfélaganna, frá Bandaríkjunum, að einhverjir einstaklingar eigi að fara í sérstaka leit. Það er eins og hefur verið. Bandaríkjamenn hafa verið með þetta, það kemur krafa frá stjórnvöldum þar í landi til flugfélaganna að einhverjir ákveðnir séu teknir út og það er bandarískra yfirvalda að ákveða það.“

Beðið um leit á ákveðnum einstaklingum

Snýr það bara að einstaklingum, ekki ákveðnum hópum frá ákveðnum löndum? Sem beðið er um að skoða sérstaklega?

Guðni segist ekki vita það með vissu en telur að svo sé ekki. „Þetta eru ákveðnir einstaklingar sem eru valdir á einhvern hátt hjá bandarískum stjórnvöldum eins og verið hefur.“ Hann bendir á að öll ríki hafi leyfi til að neita ákveðnu fólki um heimild til að ferðast til landsins. Ríki hafi rúmar heimildir til þess. 

Spurður hvort fram hafi komið að fólk frá ákveðnum löndum verði sértaklega tekið til skoðunar segir Guðni að um slíkt hafi ekki verið rætt. Hann segir upplýsingarnar um hverjum skuli leitað á koma til flugfélaganna, ekki Isavia. 

Mynduð þið gera athugasemdir við það ef þið væruð beðin um að kanna sérstaka hópa fólks, þó að farið væri fram á það?

„Við [hjá Isavia] komum í rauninni ekki nálægt því á þann hátt að vita hvort að það er verið að gera það eða að geta brugðist við. Af því að við fáum aldrei upplýsingar um hverjir þetta eru. Við erum til dæmis ekki með neinn nafnalista.“

Hann segir flugfélögin fá þessar upplýsingar og að þeim sé svo komið til þess undirverktaka sem framkvæmi leitina. Í þessu tilviki til Öryggismiðstöðvarinnar.

Skannað við brottfararhliðið

Til eftirlitsins þarf sambærilegan búnað og er nú þegar notaður við öryggisleitina á Keflavíkurflugvelli. Samkvæmt hinum hertu reglum verða raftæki nú einnig skönnuð við brottför, eins og fram kom í Morgunblaðinu í dag. 

Ekki er hægt að sjá fyrir að svo stöddu hversu umfangsmikið hið aukna eftirlit verður og hvort það verði til þess að farþegar til Bandaríkjanna þurfi að mæta enn fyrr út á flugvöll en nú er. Gerðir hafa verið ákveðnir útreikningar og „hermanir“ sem skili ákveðnum vísbendingum. „Þetta verður að koma í ljós í rauninni, hvaða áhrif þetta hefur,“ segir Guðni.

Bandarísk stjórnvöld lögðu í vetur bann við því að vera …
Bandarísk stjórnvöld lögðu í vetur bann við því að vera með fartölvur í farþegarými flugvéla. Bannið náði þó aðeins til flugfarþega frá tíu flugvöllum utan landsins. AFP

Ferða- og fartölvubann

Í mars á síðasta ári settu bandarísk stjórnvöld hömlur á meðferð stórra raftækja í farþegarými flugvéla sem flugu til Bandaríkjanna frá tíu flugvöllum í heiminum, m.a. Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Tyrklandi og Katar. Skýringin á því að far- og spjaldtölvur voru bannaðar var sú að talið var að hryðjuverkahópar gætu komið sprengjum fyrir í slíkum tækjum og þótti raunveruleg ástæða til að óttast slíkt. „Það er þetta sem þeir eru með á heilanum, hryðjuverkamennirnir, hugmyndir um að koma niður flugvél á flugi, sérstaklega ef hún er bandarísk farþegavél, sérstaklega ef hún er full af Bandaríkjamönnum,“ sagði John Kelly, heimavarnarráðherra Bandaríkjanna, í viðtali á Fox-sjónvarpsstöðinni í maí. Hann sagði þá koma til greina að banna fartölvur í öllu flugi til og frá Bandaríkjunum.

Í frétt Reuters um málið í maí kom fram að Bandaríkjastjórn hefði hafið prófanir á auknu eftirliti með raftækum á nokkrum flugvöllum. Þá sagði Kelly að líklega yrði hert eftirlit af þeim toga aukið.

Donald Trump Bandaríkjaforseti undirritaði tilskipun í byrjun árs þess efnis að ríkisborgarar nokkurra múslimalanda mættu ekki ferðast til Bandaríkjanna. Bannið var fellt úr gildi en tekið upp aftur í breyttri mynd skömmu síðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert