„Það var rosalega mikill klósettpappír“

Skólpdælustöðin sem bilaði er við Faxaskjól.
Skólpdælustöðin sem bilaði er við Faxaskjól. mbl.is/Golli

Það er ótrúlegt andvaraleysi að láta almenning ekki vita af því að gríðarlegt magn óhreinsaðs skólps flæði út í sjó í grennd við mannabyggð þar sem fólk stundar sjósport og útivist. Þetta segir kona sem stundar árabretti og býr í grennd við Ægisíðuna.

Konan fór út á árabretti ásamt tveimur vinkonum sínum á mánudagskvöldið í síðustu viku, áður en greint var frá því í fjölmiðlum að óhreinsað skólp flæddi út í hafið við Faxaskjól í Reykjavík vegna bilunar í skólpdælustöð. Í fyrstu var dálítil gjóla og gárur á sjónum og virtist ekkert vera óeðlilegt en þegar á leið blasti við þeim ófögur sjón. Rúv greindi fyrst frá.

„Við sjáum að mávarnir eru mjög nálægt, oftast eru þeir þarna lengra úti þar sem  skólpinu er sleppt, en maður fer aldrei í þá átt,“ segir konan í samtali við mbl.is. Veltu þær fyrir sér hvort ekki væri allt með felldu en létu ekki fuglana trufla sig og héldu sínu striki og réru út í Löngusker.

Löngusker í Skerjafirði blasa við frá Reykjavík.
Löngusker í Skerjafirði blasa við frá Reykjavík. mbl.is/Rax

Þegar þær voru á leið til baka var orðið stillt í veðri og sjórinn sléttur og og sást þá betur hvað var á seyði. „Það komu kaflar sem maður hefði alls ekki viljað detta ofan í,“ segir konan. Ein samferðakona hennar datt þó tvisvar á bólakaf í sjóinn. Þá hefðu þær drukkið úr vatnsbrúsum sem þær höfðu meðferðis. „Það var rosalega mikill klósettpappír, það voru eiginleg hálf hvítar rákir úti um allt. Þetta var frekar ógeðslegt og okkur leist ekki á blikuna,“ segir konan. 

Neyðarlúgan opin í 17 daga

Hún kveðst skilja að upp geti komið bilanir en auðvelt ætti að vera að upplýsa almenning um uppákomur á borð við þessa, einkum í ljósi þess að fólk fari gjarnan með börn sín og hunda í fjöruferð í nágrenninu auk þess sem margir stundi þar kajakróður og sjósund.

„Við erum allar frekar harðgerðar og ekki með neinn tepruskap en þetta var ekki beint kræsilegt og í rauninni virðingarleysi við fólk að láta ekki vita. Við skiljum að það verða bilanir en að láta ekki vita, það er mjög mikið andvaraleysi,“ segir konan.

Frá því 13. júní hefur neyðarlúga skólpstöðvarinnar í Faxaskjóli verið opin samtals í um 17 daga en hún er lokuð sem stendur en enn lekur með lúgunni. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur og Veitur funduðu í gær um verklag vegna tilkynninga um rekstrartruflanir og bilanir í fráveitukerfi. Heilbrigðiseftirlitið mun fylgjast með og taka sýni daglega út þessa viku og endurmeta ástandið miðað við rekstur dælustöðvarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert