4 ár fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.is/Kristinn Magnússon

Maður var dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot í Héraðsdómi Reykjaness. Hann hafði, ásamt tveimur öðrum, staðið að innflutningi til Íslands á samtals 30.225 e-töflum til söludreifingar í ágóðaskyni.

Hinir tveir mennirnir, Ein­ar Örn Ad­olfs­son og Finn­ur Snær Guðjóns­son, voru í maí árið 2014 dæmd­ir í sex ára fangelsi fyr­ir fíkni­efnainn­flutn­ing­inn en Hæstirétt­ur ómerkti þann dóm í sept­em­ber 2015 vegna vanhæfis dómara. Mál þeirra Einars Arnar og Finns Snæs voru tekin upp að nýju í héraði þar sem þeir voru dæmdir í fjögurra ára skilorðsbundið fangelsi í febrúar 2016.

Maðurinn sem nú hefur verið dæmdur í fjögurra ára fangelsi vegna málsins, Einar Sigurður Einarsson, hafði í ágúst 2011 farið til Amsterdam þar sem hann afhenti Einari Erni fíkniefnin, en Finnur Snær hafði fengið Einar Örn til verksins, í því skyni að þau yrðu flutt til Íslands. Þá sá Einar Sigurður einnig um að greiða hluta ferðakostnaðar og uppihalds hinna tveggja vegna ferðarinnar að því er fram kemur í dómi héraðsdóms. Fíkniefnin flutti Einar Örn með sér til Íslands frá Kaupmannahöfn í lok ágúst 2011.

Fram kemur í dómnum að Einar Sigurður hafi flutt til Ástralíu í mars 2013 og hafi ekki verið væntanlegur aftur til Íslands og því hafi mál sem höfðað hafði verið á hans hendur verið fellt niður í byrjun janúar 2014. Greinir frá því í dómnum að síðan 2011 hafi Einar Sigurður verið búsettur í Danmörku, á Íslandi, í Ástralíu og á Spáni. Hann hafi búið á Spáni þar til í lok janúar á þessu ári en þá komið aftur til Íslands.

Ákæruvald og lögregla höfðu ekki vitneskju um veru hans hér á landi fyrr en í byrjun apríl á þessu ári að því er segir í dómnum, en þá hafi hann átt bókað flug til Danmerkur daginn eftir. Var hann því handtekinn og úrskurðaður í farbann sem ekki var aflétt fyrr en við dómtöku málsins sem nú hefur verið dæmt í.

Auk fjögurra ára fangelsis sæti Einar Sigurður upptöku á 30.225 e-töflum, 1.756,08 grömmum af staðdeyfilyfinu lídókaín og 2.951,35 grömmum af alkóhólsykri. Þá ber honum að greiða 2.796.244 krónur í sakarkostnað

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert