Ahmadi-fjölskyldan er hólpin

Anisa með Mikael litla í febrúar. Hann fæddist á Landspítalanum …
Anisa með Mikael litla í febrúar. Hann fæddist á Landspítalanum í desember. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ahmadi-fjölskyldan frá Afganistan, sem sótti um hæli hér á landi í desember árið 2015, hefur fengið bestu mögulegu niðurstöðu í sitt mál hjá Útlendingastofnun: Alþjóðlega vernd til fjögurra ára. 

„Þetta þýðir að nú eru þau hólpin,“ segir Eva Dóra Kolbrúnardóttir, lögmaður fjölskyldunnar. „Þetta er besta niðurstaðan sem hægt er að fá.“

Fjölskyldan hefur fengið dvalarleyfi hér á landi næstu fjögur árin og að þeim tíma liðnum verður það endurnýjað og er þá ótímabundið. Eftir fimm ár getur hún sótt um íslenskan ríkisborgararétt. „Þau eru komin í örugga höfn,“ segir Eva Dóra sem samgleðst fjölskyldunni innilega. „Ég er svo glöð í hjarta mínu að það hálfa væri nóg.“

Eva Dóra fór með fjölskyldunni í hádeginu í dag í Útlendingastofnun þar sem ákvörðunin var tilkynnt. „Þau voru vitanlega ofsalega glöð,“ segir hún um viðbrögð fjölskyldunnar. „Við táruðumst öll en svo var brosað og hlegið.“ 

Fyrir einu og hálfu ári kom Ahmadi-fjölskyldan, sem þá taldi sjö einstaklinga, hingað til lands, hjón­in An­isa og Mir Ahmad, börn­in þeirra þrjú og Za­hra og Ali Ahmad, for­eldr­ar Mir Ahmads. Lítill drengur fæddist svo hjónunum á Landspítalanum í desember á síðasta ári.

Fjölskyldan hefur gengið í gegnum miklar raunir. 

Fyr­ir um þremur árum varð hún fyr­ir árás talib­ana í þorp­inu sínu, Meyd­an Yar­dak, í Af­gan­ist­an. Af­leiðing­ar árás­ar­inn­ar voru bæði and­leg­ar og lík­am­leg­ar. 

Ahmadi-fjölskyldan (f.v.): Ali Ahmad, Mir Ahmad, Anisa, Mikael litli og …
Ahmadi-fjölskyldan (f.v.): Ali Ahmad, Mir Ahmad, Anisa, Mikael litli og Zahra. Þrjú börn til viðbótar eru í fjölskyldunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í kjöl­far henn­ar lögðu þau á flótta. Þau höfðu viðkomu í Þýskalandi á leið sinni til Íslands. En vikudvöl þar reynd­ist af­drifa­rík. Stjórn­völd létu Mir Ahmad gefa fingra­för sín og þar með var litið svo á að hann hefði sótt þar um dval­ar­leyfi. Þegar fjöl­skyld­an sótti svo um hæli á Íslandi fékk hún synj­un í fyrstu og til stóð að senda hana aft­ur til Þýska­lands á grund­velli Dyfl­inn­ar­reglu­gerðar­inn­ar. En Útlendingastofnun komst að lokum að annarri niðurstöðu.

„Það grundvallaðist helst af viðkvæmri stöðu barnanna,“ segir Eva Dóra. Áhrif árásarinnar á börnin þrjú voru mikil, sérstaklega á stúlkuna. Ljóst þykir að hún mun glíma við þau alla sína ævi. Eva Dóra segir að kærunefndin hafi í dag komist að þeirri niðurstöðu að fjölskyldan teljist í það viðkvæmri stöðu að það beri að beita undanþáguheimild frá Dyflinnar-reglugerðinni og veita fjölskyldunni hæli hér á landi.

Þegar mbl.is heimsótti fjölskylduna í febrúar lýsti fullorðna fólkið því hversu heitt það þráði að fá að eiga heima á Íslandi. Börnin höfðu aðlagast nokkuð vel og leið vel í skóla og leikskóla í Breiðholtinu þar sem fjölskyldan býr.

„Þau segjast nú loks geta farið að sofa róleg,“ segir Eva Dóra. Fjölskyldan sé einstaklega þakklát fyrir þessa niðurstöðu og alla þá Íslendinga sem aðstoðað hafa hana við að fóta sig í samfélaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert