Braut kynferðislega gegn barnabörnum

Héraðsdómur Norðurlands eystra.
Héraðsdómur Norðurlands eystra. mbl.is/Skapti

Héraðsdómur Norðurlands eystra dæmdi í gær karlmann um áttrætt til fjögurra ára fangelsisvistar fyrir að hafa brotið kynferðislega á þremur barnabörnum sínum yfir tíu ára tímabil. Maðurinn lét stúlkurnar fróa sér, hann fróaði þeim, sleikti kynfæri þeirra og lét þær horfa á klámfengið efni. Stúlkurnar voru sex til fjórtán ára þegar brotin áttu sér stað.

Systir eins fórnarlambsins bar vitni fyrir dómi þar sem hún sagði afa sinn einnig hafa misnotað sig, en málið taldist fyrnt og leiddi því ekki til ákæru.

Hún sagðist enn fremur hafa heyrt af níu fórnarlömbum mannsins sem væru öll börn hans og barnabörn. Í vitnisburði föður tveggja stúlknanna sem maðurinn var sakfelldur fyrir að hafa misnotað segir hann þetta ekki hafa komið sér á óvart þar sem elsta dóttir mannsins hefði sagt honum að gæta dætra sinna í kringum afa þeirra. Hann sagðist aldrei hafa fengið nánari skýringar og viðvörunin fallið í gleymsku.

Fyrrverandi unnusti einnar stúlknanna bar vitni og sagði fyrrverandi unnustu sína hafa sagt sér frá misnotkuninni og vinkona einnar stúlknanna sagði hana hafa sagt afa sinn hafa svipt hana meydómi.

Dómurinn taldi að með engu móti yrði ráðið að fórnarlömb mannsins hefðu haft sammæli um þetta en maðurinn neitaði alfarið sök í málinu. 

Hér má lesa dóminn í heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert