Faðir Louise kemur til landsins

Louise Soreda er komin í leitirnar. Faðir hennar kemur til …
Louise Soreda er komin í leitirnar. Faðir hennar kemur til landsins og þau halda ferðalaginu áfram. Ábendingarnar sem lögreglu bárust skipta hundruðum. Samsett mynd

Ábending starfsmanns í apóteki á Selfossi um ferðir Louise Soreda, franska ferðalangsins sem leitað hefur verið síðustu daga, varð til þess að lögreglu tókst að hafa uppi á stúlkunni. Leit lögreglu hófst í kjölfar ábendingar frá Interpol en fjölskylda Soreda hafði áhyggjur af andlegu ástandi hennar.

Það var starfsmaður apóteksins sem upplýsti Soreda um að leit stæði yfir að henni.

Soreda hafði samband við fjölskyldu sína í Frakklandi og frönsk lögregluyfirvöld í dag og var ákveðið í samráði við hana að faðir hennar kæmi til Íslands og þau héldu ferðalaginu áfram í sameiningu.

Hún keypti flugmiða aðeins aðra leiðina til Íslands og Vísir greindi frá því að hún hefði skilið eftir bréf til föður síns um hversu stolt hún væri af honum. Það olli fjölskyldu hennar hugarangri.

Jón Halldór Sigurðsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á Suðurnesjum, segir að lögreglumenn á Selfossi hafi metið ástand stúlkunnar sem svo að óþarft hefði verið að hafa frekari afskipti af henni eftir að hún hafði samband við ættingja sína.

Almenningur veitti lögreglu mikla aðstoð við leitina að Soreda og barst lögreglu mikill fjöldi ábendinga. „Ég hef ekki töluna á því, en þær skipta hundruðum,“ segir Jón Halldór um fjöldann. „Hún var mest í höfuðstaðnum og á Suðurlandi,“ heldur hann áfram en flestar ábendingarnar sem lögreglu bárust voru um ferðir hennar þar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert