TF-SIF á Ítalíu til ágústloka

TF-SIF er á leið til landamæragæslu á Miðjarðarhafi.
TF-SIF er á leið til landamæragæslu á Miðjarðarhafi. AFP

TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar, hélt í morgun áleiðis til Sikileyjar en næstu vikur mun áhöfn hennar sinna landamæraeftirliti á Miðjarðarhafi fyrir Landamæra- og strandgæslustofnun Evrópu (Frontex). Verður vélin á Ítalíu þar til í lok ágúst.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Gæslunni.

„Verkefnið er liður í Tríton-áætlun Frontex sem hófst í árslok 2014. Markmið áætlunarinnar er meðal annars leit og björgun flótta- og farandfólks sem leggur á sig hættulegt ferðalag frá Afríku og Mið-Austurlöndum til Ítalíu. Yfirvöld á Ítalíu bera ábyrgð á framkvæmd áætlunarinnar en alls taka 25 aðildarríki Schengen-samstarfsins þátt í henni með því að leggja til starfsfólk og búnað, þar á meðal Ísland,“ segir í tilkynningunni.

Þar er einnig greint frá því að samkvæmt Frontex hafa 116.000 manns freistað þess að komast með ólögmætum hætti til Evrópu á fyrstu sex mánuðum ársins með því að sigla yfir Miðjarðarhaf.

„Þetta er 68 prósenta fækkun miðað við árið í fyrra þegar mikill fjöldi flóttafólks kom frá Tyrklandi yfir Eyjahafið. Þeirri leið hefur nú að mestu verið lokað. Fjöldi þeirra sem reynir að komast til Ítalíu hefur hins vegar vaxið. Það sem af er ári hafa 85.000 manns reynt að sigla til Ítalíu, rúmum fimmtungi fleiri en sama tímabil í fyrra. Flestir komu frá Nígeríu, Bangladess, Gíneu og Fílabeinsströndinni.“

 
 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert