„Hér er túlkaþjónusta lúxus“

Áslaug Ýr Hjartardóttir.
Áslaug Ýr Hjartardóttir.

Sam­skiptamiðstöð heyrnar­lausra og heyrn­ar­skertra og íslenska ríkið voru í dag sýknuð af kröfu Áslaugar Ýrar Hjartardóttur, daufblindrar stúlku sem fyrr í sumar stefndi fyrrnefndum aðilum vegna mis­mun­un­ar. Áslaug Ýr er með samþætta sjón- og heyrna­rskerðingu og hugðist sækja sum­ar­búðir fyr­ir dauf­blind ung­menni frá Norður­lönd­un­um í júlí, en fær ekki þá aðstoð og túlkaþjónustu sem önn­ur ung­menni á Norðurlöndunum fá sem sækja sumarbúðirnar. 

Áslaug er þó ekki af baki dottin og hyggst áfrýja dómnum til Hæstaréttar. Hún hyggst jafnframt halda sínu striki og fer utan í sumarbúðirnar á mánudaginn þar sem hún mun að óbreyttu sjálf þurfa að standa straum af kostnaði við túlkaþjónustu. 

Þrátt fyrir ósigur gegn íslenska ríkinu og SSH fær Áslaug gjafsókn sem hún segir í sjálfu sér vera örlítinn sigur sem muni hvetja hana áfram. Áslaug Ýr greindi frá niðurstöðum dómsins á Facebook-síðu sinni í dag en pistill Áslaugar hefst á orðunum „Má ég kynna forréttindaþjóðina Ísland?“ 

„Hér er túlkaþjónusta lúxus og daufblindir læknast þegar þeir stíga út fyrir landsteinana. Alþjóðasamfélagið kemur okkur víst ekkert við, Ísland er sjálfstætt eyland sem er betri en öll hin löndin,“ skrifar Áslaug meðal annars. Segir hún að aðeins með breyttum lögum og reglum í landinu verði unnt að tryggja mannréttindi allra. Ég ætla ekki að kalla mig stoltan Íslending fyrr en ég næ mannréttindunum upp úr kafinu og get haldið áfram leið mína út í heim, þar sem alþjóðasamfélag ríkir,“ skrifar Áslaug.

„Hún er alveg ákveðin í að fara,“ segir Bryndís Snæbjörnsdóttir, móðir Áslaugar, í samtali við mbl.is. „Hún er ekkert að biðja um peninga til að borga sumarbúðirnar fyrir sig heldur náttúrlega bara túlkunina. Hún er búin að fjármagna allt hitt sjálf, það er ekki eins og hún sé að biðja um einhvern lúxus,“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert