Fjölga ferðum til og frá Akranesi

Ferjan Akranes mun frá og með morgundeginum sigla tvisvar sinnum …
Ferjan Akranes mun frá og með morgundeginum sigla tvisvar sinnum á laugardögum og sunnudögum milli Akraness og Reykjavíkur og fjórum sinnum á virkum dögum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Daglegum áætlunarsiglingum milli Reykjavíkur og Akraness, sem hófust fyrir mánuði síðan, mun fjölga frá og með deginum í dag. Ferjan Akranes hefur alla virka daga síðan 14. júní síðastliðinn siglt þrisvar sinnum á dag fram og til baka milli Akraness og Reykjavíkur en frá og með næsta mánudegi verða ferðirnar fjórar á dag.

Þá hefur hingað til ekki verið boðið upp á siglingar um helgar en frá og með deginum í dag verða tvær ferðir á dag bæði á laugardögum og sunnudögum. Verkefnið hefur farið vel af stað og er í sífellu leitast við að aðlaga þjónustuna að þörfum notenda að sögn framkvæmdastjóra Sæferða sem sjá um ferðirnar.

„Þetta fer bara vel af stað. Við sjáum auðvitað greinilegan mun á háttarlagi fólks þegar það er sól eða þegar það er rigning og rok og það er eðlilegt,“ segir Gunnlaugur Grettisson, framkvæmdastjóri Sæferða, í samtali við mbl.is.

Ferjan tekur 112 farþega en mestur hingað til hefur fjöldi farþega í einni ferð verið um 60-70 manns að sögn Gunnlaugs. „Oftast er þetta auðvitað minna en það er misjafnt eftir ferðum. Við höfum ekki þurft að vísa frá, það er gott fyrir kúnnann okkar en það væri gaman ef það koma fleiri,“ segir Gunnlaugur.

Meirihluti farþega Íslendingar

Hann segir að jafnt og þétt hafi farþegum farið fjölgandi en þeir eru jafnan fleiri þá daga er vel viðrar. „Nú er að verða kominn mánuður frá því við byrjuðum og við eigum svo sem ennþá eftir að fá sumarið eins og við þekkjum,“ segir Gunnlaugur.

Spurður um farþegana sem nýta sér þjónustuna segir Gunnlaugur yfirgnæfandi meirihluta þeirra vera Íslendinga, en þó sé um að ræða ágætis blöndu bæði ferðafólks og heimamanna.

„Það er hvoru tveggja. Það eru mjög margir sem eru að fara í heimsókn upp á Skaga eða ofan af Skaga til Reykjavíkur auðvitað,“ segir Gunnlaugur. Þá ferðist margir með reiðhjólin sín á milli með ferjunni og hjóla síðan til og frá vinnu, hvort sem það er á Akranesi eða í Reykjavík. „Ég myndi bara segja að það væri góð blanda af heimamönnum ofan af Skaga og svo túristum og Reykvíkingum auðvitað,“ segir Gunnlaugur, „en þorrinn eru Íslendingar.“

Heimamenn duglegir að kaupa 20 miða kort

Hægt er að kaupa staka ferð í ferjuna á 2.500 krónur eða ferð fram og til baka á 4.000 kr. Þá er einnig hægt að kaupa 20 miða kort þar sem ferðin er á 875 krónur. Að sögn Gunnlaugs er allur gangur á því hvernig farþegar hátti miðakaupum.

„Það er í raun og veru ótrúlega jafnt á öllum vígstöðvum. Heimamenn ofan af Skaga, þeir eru mikið að kaupa 20 miða kortin og þeir sem sækja vinnu upp á Skaga. Það eru einstaklingar sem fara með okkur á hverjum morgni upp á Akranes og fara þangað í vinnu, þannig að það er í báðar áttir. Svo er það alveg jöfnum höndum hvort fólk er að kaupa fram og til baka miðana eða bara aðra leiðina,“ segir Gunnlaugur.  

Helgarferðirnar sem hefjast á morgun verða bæði á laugardögum og sunnudögum klukkan 10 frá Reykjavík og klukkan 11 til baka og þá aftur klukkan 17 frá Reykjavík og til baka klukkan 18 frá Akranesi. Ferðin sem bætt verður við á virkum dögum frá og með mánudeginum verður að líkindum klukkan 14 frá Reykjavík og kl. 15 til baka frá Akranesi.

„Við erum bara ánægð með hvernig þetta fer af stað og fáum mjög jákvæð og skemmtileg viðbrögð frá okkar farþegum. Því að auðvitað er leiðin stutt og skipið gott þannig að þetta fer bara vel af stað,“ segir Gunnlaugur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert