Ákvað ung að verða ein sú besta

mbl.is/Kristinn Magnússon

Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði og ótvíræður leiðtogi landsliðsins í fótbolta, er aðeins 26 ára en þrátt fyrir það á leið í úrslitakeppni Evrópumótsins í þriðja skipti. Hún hefur unnið marga glæsta sigra með félagsliðum hér heima, í Svíþjóð og nú síðast í Þýskalandi, en ferillinn ekki alltaf verið dans á rósum. Þessi gríðarlega metnaðarfulla fótboltakona meiddist mjög illa á unglingsaldri, gat ekkert æft í nokkur misseri, en lét það ekki á sig fá. Hún spilar nú með einu allra besta liði álfunnar en stefnir sífellt hærra.

Rætt er við Söru Björk í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Á síðasta ári varð Sara Björk í 19. til 23. sæti í kjöri besta leikmanns Evrópu, á vegum UEFA, Knattspyrnusambands Evrópu, þar sem þjálfarar bestu landsliða og félagsliða tóku þátt ásamt hópi íþróttafréttamanna.

Mikil viðurkenning

„Þetta var að sjálfsögðu mjög ánægjulegt. Það er mikil viðurkenning að vera á meðal þeirra bestu í svona kjöri en ég hugsa þó ekki mikið um þetta eða um að vera komin í eitthvert sæti ofar á listanum næst. Ég hugsa bara um að leggja á mig enn meiri vinnu en áður til að ná þeim markmiðum sem ég set mér. Árangur næst með mikilli vinnu og það er gaman að uppskera,“ segir Sara við blaðamann Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins, þegar kjörið ber á góma.

Sara Björk lék með Haukum í Hafnarfirði fyrstu árin, framinn var skjótur og hún var fyrst valin í A-landsliðshópinn 2007, aðeins 16 ára. Ekki nóg með það; hún kom inn á gegn Slóveníu í Dravograd um sumarið og lék í nokkrar mínútur.

Þetta er athyglisvert í ljósi þess að Sara Björk var nýbúin að jafna sig eftir erfið meiðsli. Krossband í hné slitnaði og Sara gat ekkert verið í fótbolta í nokkur misseri, frá því vorið 2005 þar til síðla árs 2006. Missti úr tvö heil keppnistímabil.

Þroskaðist sem manneskja og leikmaður

Hún segist, eftir á að hyggja, hafa lært mikið á meðan hún beið. „Þessi tími mótaði mig mjög mikið. Ég breyttist bæði sem manneskja og fóboltamaður, þótt ég væri ekki að æfa. Ég var staðráðin í því að snúa betri til baka, fékk mikinn stuðning frá mínum nánustu, eins og alltaf, og jafnvel má segja að það hafi gert mig að þeim leikmanni sem ég er í dag.

Þegar maður meiðist er nefnilega tvennt sem kemur til greina og létta leiðin er að gera allt með hálfum huga. Ég var bara 15 ára og margt annað í gangi, mikill þrýstingur frá vinum að koma frekar á skólaböll eða gera eitthvað í þeim dúr frekar en að æfa sig.

Áður en ég meiddist hafði ég verið valin á úrtaksæfingar með landsliði og þegar á meðan ég var meidd áttaði ég mig á því hversu svakalegt keppnisskapið er! Ég hugsaði um að á meðan ég gat sama og ekkert gert væru aðrir að æfa og bæta sig, svo að í endurhæfingunni yrði ég að leggja þrefalt á mig því annars færu allir fram úr mér.“

Hugarfarið er mesti styrkleikinn

Sara Björk segist oft spurð að því hverjir séu mestu styrkleikar hennar sem fótboltamanns. „Ég hef vissulega marga góða kosti en mesti styrkleikinn er hugarfarið; ég spila alltaf með hjartanu og legg mig alltaf 100% fram. Ég er með ótrúlega sterka innri áhugahvöt sem drífur mig áfram. Sigurvíma er betri en allt annað; tilfinningin sem maður fær þegar liðið vinnur leik eða þegar ég er best á æfingu. Ég lifi fyrir það og allt erfiðið sem ég legg á mig; ég elska að fara út að hlaupa og æfa aukalega því ég veit að það skilar mér sigrum og titlum og öðrum markmiðum sem ég set mér.

Ég veit að öll vinnan skilar sér. Maður verður að elska erfiðið og þegar maður uppsker er tilfinningin svo ótrúlega góð að ég er strax tilbúin að leggja það allt á mig aftur.“

Nánar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins

Sara Björk Gunnarsdóttir með boltann í landsleiknum gegn Brasilíu í …
Sara Björk Gunnarsdóttir með boltann í landsleiknum gegn Brasilíu í Laugardalnum um daginn. mbl.is/Golli
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert