Bæði stormur og sumarblíða í kortunum

Þegar líður á seinni hluta komandi viku má búast við …
Þegar líður á seinni hluta komandi viku má búast við að hiti fari víða yfir 20°C. mbl.is/Eggert

Búast má við sviptingum í veðri á næstu dögum þar sem nokkuð hvasst verður fyrst um sinn og væta og hvassviðri á þriðjudaginn, en snýst svo í hlýrra veður þegar líður á vikuna og hiti fer víða yfir 20°C seinni hluta vikunnar með sumarblíðu.

Næsta sólarhringinn er spáð suðvestlægri átt, 5-10 metrum á sekúndu og skúrum, en úrkomulitlu um landið norðaustanvert. Þegar líða tekur á morguninn hvessir allra syðst og við norðurströndina og er spáð stífri vestanátt syðst á landinu, 13-18 metrum á sekúndu síðdegis.

Veðurstofan spáir rigningu með köflum á Norðurlandi, en að það létti til á Suðausturlandi. Annars staðar verði dálitlar skúrir.

Í kvöld er svo gert ráð fyrir að það dragi úr vindi og úrkomu og það verði 5-10 metrar á sekúndu á morgun, en dálitlar skúrir. Á Austurlandi verði hins vegar yfirleitt þurrt. Spáð er hita á bilinu 8-18°C, hlýjast á Suðausturlandi.

Samkvæmt Veðurstofunni má búast við því að á þriðjudaginn verði …
Samkvæmt Veðurstofunni má búast við því að á þriðjudaginn verði suðaustan hvassviðri og stormur við suðvesturströndina. RAX / Ragnar Axelsson

Segir í athugasemdum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands að á þriðjudaginn gangi í suðaustan hvassviðri með talsverðri rigningu og búast megi við stormi við suðvesturströndina um tíma þegar kröpp lægð nálgast landið úr suðri. Lægðinni fylgir þó hlýrra loft og má búast við að hiti fari yfir 20 stig víða um land seinni hluta vikunnar með sumarblíðu.

Veður á mbl.is 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert