Húsið sem brann er frá árinu 1910

Húsið sem brann á Stokkseyri í morgun er frá árinu …
Húsið sem brann á Stokkseyri í morgun er frá árinu 1910. Samkvæmt heimildum mbl.is er um að ræða sama hús og var vettvangur Stokkseyrarmálsins svokallaða. mbl.is/Jóhann Óli Hilmarsson

„Tvær stöðvar voru kallaðar út í þetta og við vorum með tvo dælubíla, tvo tankbíla og körfubíl í gangi þarna því þetta var náttúrlega töluverður eldur,“ segir Sverrir Haukur Grönli, varaslökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu, í samtali við mbl.is, um brunann sem varð á Stokkseyri í morgun. Ekki er vitað að svo stöddu til hvers megi rekja upptök eldsins og er rannsókn þess nú í höndum lögreglu.

„Formlega vorum við búnir að slökkva alveg fyrir um þremur tímum en svo tekur sú vinna við að rífa veggi og leita að glóð því það rýkur úr þessu,“ segir Sverrir. „Eldurinn fer inn á milli veggja og það er það sem er svo erfitt að eiga við. Ef við myndum bara pakka saman og fara þá myndi bara kvikna í aftur.“

Húsið vettvangur Stokkseyrarmálsins

Húsið sem brann er eitt af elstu húsum á Stokkseyri og var eldri hluti þess byggður árið 1910. Að sögn Sverris Hauks stóð talsverður eldur út um glugga hússins og var það alelda að innan. Öðrum nærliggjandi húsum stafaði ekki hætta af brunanum. „Þetta er einangrað með heyi og búið að byggja við þetta, þá er oft erfitt að eiga við þetta,“ segir Sverrir.

Föst búseta var í húsinu en íbúa tókst að koma sér út úr húsinu áður en viðbragðsaðila bar að garði. Konan var flutt á slysadeild í Reykjavík vegna gruns um reykeitrun.

Samkvæmt heimildum mbl.is er húsið sem brann hið sama og var vettvangur óvenjugrófrar líkamsárásar árið 2013, Stokkseyrarmálsins svokallaða, sem talsvert hefur verið fjallað um í fjölmiðlum. Nokkrir menn hlutu dóma vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert