Reykjavík sem ekki varð

Anna Dröfn er aðjúnkt og fagstjóri við Listaháskóla Íslands og …
Anna Dröfn er aðjúnkt og fagstjóri við Listaháskóla Íslands og Guðni Valberg er einn af eigendum arkitektastofunnar Trípólí. Þau eru hjón og eiga tvær stelpur, Ingu Bríeti, fædda 2013 og Iðunni Ásu fædda 2016. Ómar Óskarsson

Hjónin Anna Dröfn Ágústsdóttir sagnfræðingur og Guðni Valberg arkitekt, höfundar bókarinnar „Reykjavík sem ekki varð“, munu leiða kvöldgöngu klukkan átta, fimmtudaginn 3. ágúst. Í henni verður stiklað á byggingarsögu nokkurra opinbera bygginga sem risu í miðbæ Reykjavíkur, með áherslu á þau byggingaráform sem urðu ekki að veruleika.

Þau munu einkum fjalla um þær opinberu byggingar sem til umræðu var að reisa við Arnarhól. Það getur talist nokkuð merkilegt að tekist hafi að standa vörð um þetta eftirsótta græna svæði í miðborginni í svo langan tíma.

Kjörinn vettvangur til að ræða það sem ekki varð

Allir eru velkomnir í sögugönguna og þátttaka er ókeypis. Gangan hefst fyrir framan Menningarhúsið í Grófinni en þaðan verður gengið á Austurvöll og alþingisbyggingin rædd.

Á leiðinni frá Austurvelli að Arnarhóli, þar sem göngunni lýkur, verður fjallað um byggingarsögu Þjóðleikhússins. Á Arnarhóli verður svo rætt um skipulag opinberra bygginga á hólnum frá árinu 1906, hugmyndir um byggingu Háskóla Íslands þar og þær deilur sem risu um byggingu seðlabanka.

Anna Dröfn og Guðni eru höfundar bókarinnar „Reykjavík sem ekki varð“ sem kom út árið 2014. Bókin fékk góðar viðtökur og síðan hafa þau haldið sýningu og verið með námskeið um efni hennar í Endurmenntun Háskóla Íslands. „Þetta er í fyrsta skipti sem við ræðum hana í sögugöngu en ég held að það sé kjörinn vettvangur til hittast og ræða það sem ekki varð,“ segir Anna.

Hér má sjá mynd Guðna, sem sýnir Þjóðleikhúsið ef það …
Hér má sjá mynd Guðna, sem sýnir Þjóðleikhúsið ef það hefði verið byggt á Arnarhól. Mynd/Guðni Valberg

Áhersla á Arnarhól

Megináherslan í sögugöngunni verður á þær byggingar sem tengjast Arnarhóli á einhvern hátt. „Það er spennandi svæði til að fjalla um núna þar sem það eru svo miklar framkvæmdir þarna fyrir neðan,“ segir Anna.

„Við gerð bókarinnar fannst mér sjálfri svo áhugavert að síðustu 100 ár hefur reglulega verið til umræðu að byggja á hólnum. Ég hafði aldrei pælt í því að það væri eitthvað merkilegt við að það væri ekki hús þarna. En það er í rauninni dálítið merkilegt,“ segir Anna.

Hún segir að það hafi verið til umræðu að byggja alþingishúsið við hólinn, Háskóla Íslands, Þjóðleikhúsið og Seðlabankann, svo eitthvað sé nefnt. Þrátt fyrir að hugmyndin hljómi einkennilega þætti okkur það sjálfsagt ef orðið hefði úr byggingunum. Í rauninni sé enn einkennilegra að ekki skuli hafa verið byggt á reitnum. Anna bendir til dæmis á að Þjóðleikhúsið hefði tekið sig vel út þar.

Týnda púslið

Anna segir að það liggi skemmtilegar ástæður að baki því að byggingar hafi ekki verið reistar á Arnarhóli. „Til dæmis þegar var til umræðu að reisa Þjóðleikhúsið fannst einhverjum það ómögulegt því að nýbúið var að setja styttuna af Ingólfi þarna,“ segir Anna.

Aðspurð hvað sé heillandi við þau byggingaráform sem ekki litu dagsins ljós svarar Anna: „Þetta er týnda púslið sem varpar ljósi á ótrúlega margt í þróun miðborgarinnar. Það er gaman að velta fyrir sér að átök um skipulagsmál, sem sumir halda kannski að séu ný af nálinni, hafi bara alltaf verið.“ Anna segir þetta alltaf hafa verið hitamál. „Þegar kemur að því að skipuleggja nærumhverfi okkar þá hafa allir skoðun á því,“ segir Anna.

Allir eru velkomnir í sögugönguna fimmtudaginn 3. ágúst og þátttaka …
Allir eru velkomnir í sögugönguna fimmtudaginn 3. ágúst og þátttaka er ókeypis. Gangan er haldin á vegum Borgarbókasafnsins, Borgarsögusafnsins og Listasafns Reykjavíkur, sem bjóða upp á kvöldgöngur með leiðsögn alla fimmtudaga kl. 20. Í júní, júlí og ágúst á hverju ári. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Efniviðurinn náði algjörum tökum á okkur“

Hugmyndin að bókinni kviknaði árið 2012 þegar hjónin sátu heima að glugga í bækur sem þau höfðu keypt á bókamarkaði. Þá ræddu þau þekktar byggingar í miðbænum sem voru umdeildar á sínum tíma, voru lengi í byggingu og breyttust í útliti eða risu á öðrum stað en stóð til í fyrstu.

„Guðni fór að teikna upp fyrir mig skipulagsáform á Arnarhóli í byrjun 20. aldar sem hefðu gjörbreytt upplifun okkar af svæðinu þar í kring ef af þeim hefði orðið,“ segir Anna. Í kjölfarið hafi hugmyndin kviknað að því að taka saman yfirlit yfir helstu byggingarnar sem urðu ekki, teikna þær upp í þrívídd og fella inn á ljósmynd af Reykjavík eins og við þekkjum hana í dag.

„Við sökktum okkur í rannsóknir og efniviðurinn náði algjörum tökum á okkur. Ótrúlega spennandi skjöl og áhugaverðar og oft á tíðum mjög heitar umræður sem komu í ljós í bæjarstjórn, á Alþingi og í dagblöðum,“ segir Anna. „Það var ljóst að af nógu var að taka þegar kom að sögu byggingarlistar og skipulagsmála í miðbænum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert