Sex heimilisofbeldismál í nótt

mbl.is/Kristinn Freyr Jörundsson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk tilkynningu um sex heimilisofbeldismál í gærkvöldi og nótt. Voru gerendur í þremur málum handteknir á staðnum og vistaðir í fangageymslu, en í hinum þremur málunum voru þeir farnir af vettvangi þegar lögreglu bar að. Haft verður uppi á þeim síðar. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Þar segir að áverkar þolenda hafi verið misalvarlegir.

Þá handtók lögreglan fimm ökumenn fyrir grun um að aka undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Allir voru látnir lausir að lokinni blóðsýnatöku.

Á fimmta tímanum var svo ölvaður maður handtekinn í Breiðholti grunaður um að hafa hótað og ógnað fólki með hnífi. Hann er nú vistaður í fangageymslu og er málið til rannsóknar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert