Upptök olíumengunar óþekkt að svo stöddu

Olíumengun í læk í Grafarvogi.
Olíumengun í læk í Grafarvogi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki er vitað nákvæmlega til hvers megi rekja olíumengun sem upp er komin í læk í Grafarvogi. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur í samstarfi við Veitur hefur fylgst með læknum en talsverð olíumengun er enn í læknum sem rennur í niður Grafarvoginn að sögn fulltrúa heilbrigðiseftirlitsins.

Fréttastofa Stöðvar 2 greindi frá því í fyrradag að mikil olíumengun væri í læknum og að um nokkurt skeið hefðu komið upp tilfelli mengunar á svæðinu sem ekki hafi verið hægt að rekja.

„Við höfum fylgst með þessu,“ segir Rósa Magnúsdóttir hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur í samtali við mbl.is. „Við sjáum úr hvaða útrás þetta kemur inn í lækinn en gátum ekki fylgt þessu eftir í gær en þegar við skoðuðum í morgun var þetta ennþá svona. Við höfum verið að reyna að finna út úr þessu í samstarfi við Veitur,“ segir Rósa sem mun í dag funda með Veitum og fara yfir málið. Í framhaldinu mun meira liggja fyrir um næstu skref.

Greinilega má sjá merki olíumengunarinnar í læknum.
Greinilega má sjá merki olíumengunarinnar í læknum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sterk olíulykt og greinileg merki mengunar

Lækurinn rennur um vinsælt útivistarsvæði þar sem almenningur viðrar gjarnan hunda sína auk þess sem viðkvæmt fuglalíf er á svæðinu. Ljósmyndari mbl.is skoðaði aðstæður við lækinn í dag og tók meðfylgjandi myndir. Nokkuð sterka olíulykt var að finna við lækinn og sjá má greinileg merki mengunarinnar í læknum.

Í samtali við Stöð 2 í gær sagði Árni Guðmundsson, varaformaður Íbúasamtaka Grafarvogs, að íbúar litu málið alvarlegum augum og að stjórn samtakanna myndi koma saman eftir helgi til að fara yfir málið.

Lækurinn rennur skammt frá tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum og …
Lækurinn rennur skammt frá tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum og niður í sjálfan Grafarvoginn. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert