Vakning gagnvart legslímuflakki

Mynd úr safni
Mynd úr safni AFP

Legslímuflakk eða endómetríósa er algengari sjúkdómur en hann var áður og læknar þurfa að vera vel á varðbergi svo hægt sé að greina sjúkdóminn snemma. Þetta segir Jón Ívar Einarsson, kvensjúkdómalæknir og skurðlæknir í Boston og prófessor við læknadeild Harvard-háskóla, en hann er sérhæfður í kviðsjáraðgerðum. Jón Ívar segir að á ráðstefnu AAGL, sem stendur fyrir Advancing Minimally Invasive Gynecology Worldwide, verði tækninýjungar í kviðsjáraðgerðum við legslímuflakki í forgrunni.

Ráðstefna á heimsmælikvarða

„Þessi samtök eru stærstu samtök lækna í kviðsjáraðgerðum með átta þúsund meðlimum. Ráðstefnan er á heimsmælikvarða og þetta er allt toppfólk sem kemur frá Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu og Suður-Ameríku,“ segir Jón Ívar sem fékk það í gegn að þessi stóra ráðstefna yrði haldin hér á landi.

Jón Ívar hefur nú gegnt yfirlæknisstöðu í Boston í ellefu ár og er þar með með yngstu mönnum sem hafa náð svo langt, og segir það hafa haft áhrif á að það að hann var kosinn forseti þessara virtu samtaka.

Hann segir sjúkdóminn endómetríósu eða legslímuflakk oft vangreindan og sérhæfða þjónustu þurfi við þær konur sem greinist.

„Í rauninni þarf eiginlega að vera einhver miðstöð fyrir þær aðgerðir sérstaklega því þær eru oft virkilega erfiðar. Legslímuflakk verður þegar frumur úr innra lagi legsins fara úr leginu við blæðingar og setjast á yfirborðsþekju á líffærunum í kviðarholinu. Þetta veldur oft mjög miklum samvöxtum og vex inn í líffæri eins og endaþarm eða blöðru og það þarf mikla sérþekkingu á þessu sviði til að geta tekist á við þetta.“

Mikil þróun í læknatækjum

„Á þessari ráðstefnu fjöllum við um skurðaðgerðir vegna legslímuflakks. Þar hefur verið mikil þróun; allt gert í kviðsjá sem áður var gert með stórum skurði. Það er líka mikil þróun í tækjum og róbótar eiga eftir að breyta umhverfinu mikið á næstu árum.

Ég hef sjálfur mikinn áhuga á þróun tækninnar innan fagsins, því einn af mínum mörgu höttum er að ég er með fyrirtæki þar sem við erum að þróa nokkur skurðlækningatæki sem ég hef fundið upp,“ segir Jón Ívar.

Á ráðstefnunni er einblínt á framfarir í kviðsjáraðgerðum en lyfjameðferð er einnig beitt við sjúkdómnum.

„Það eru tvær meginmeðferðir; skurðaðgerð og lyfjameðferð sem er einskonar hormónameðferð.

Legslímuflakkið þróast hægt á mörgum árum, það byrjar með litlum blöðrum sem valda bólgum, sem aftur valda samvöxtum. Þetta lítur mjög mismunandi út þegar gerð er aðgerð á 18 ára stúlku eða fertugri konu. Sú eldri er með miklu meiri samvexti og örvef á meðan sú yngri er með minni blöðrur.“

Hann segir því mikilvægt að greina meinið snemma.

„Fjölmargar konur og unglingsstúlkur eru með legslímuflakk án þess að vita það og oft eru þær ekki greindar nógu snemma. Þær fara á milli margra lækna, segja þeim að þær séu með mjög slæma verki þegar þær hafa blæðingar og verki við samfarir og önnur einkenni og það er ekki hlustað almennilega á það og þá fer legslímuflakkið að grassera og verður sífellt verra. Læknar eru því miður ekki alltaf að tengja.“

Prenta út módel af grindarbotnslíffærunum

Er þá eitthvað að gerast í greiningarmálum?

„Nei, vandamálið er að það er ekki hægt að sannreyna að kona sé með legslímuflakk nema með því að fara með hana í skurðaðgerð. Sú skurðaðgerð getur reyndar verið mjög einföld, það er sett lítil myndavél inn í kviðinn og konan fer heim samdægurs. Við höfum reyndar verið að prófa okkur áfram með þrívíddarprentara úr segulómunarskanna, og prenta út módel af grindarbotnslíffærunum í þrívídd og við getum áttað okkur á hvað er að gerast.“

-Ef konu grunar að hún sé með legslímuflakk, getur hún beðið um að fá að fara í svona skurðaðagerð?

„Hún ætti alla vega að tala við kvensjúkdómalækni sem sérhæfir sig í konum með legslímuflakk. Ég veit að Auður Smith hefur séð mjög vel um mikinn hluta þessara sjúklinga en hún er rosalega umsetin.“

- Hvernig er ástandið hér á landi?

„Það eru nokkrir góðir læknar að takast á við þetta og Auður hefur verið að reyna að stofna teymi á Landspítalanum. En það er erfitt, það er fjársvelti alls staðar í kerfinu og það er ekki nægilega vel séð um þessar konur. Það eru oft fleiri en ein ástæða fyrir því að þær hafa verki og þær þurfa oft sérhæfða þjónustu. Ekki bara skurðaðgerð eða lyf, heldur líka hugsanlega sálfræðimeðferð, t.d. ef þú hefur verið með króníska verki í mörg ár, endurhæfingu t.d. vegna grindarbotnsvandamála, og sumar með enn aðrar ástæður fyrir verkjunum. Í Boston erum við með teymi þar sem svæfingalæknir sér um verkjameðferðina, við erum með meltingarsérfræðing, þvagfæraskurðlækni og sjúkraþjálfara til þess að sjá vel um þessar konur. Það er ekki nóg að skræla legslímuflakkið út og þá er allt í lagi.“

Fleiri blæðingar auka líkurnar

- Er legslímuflakk að aukast?

„Ég veit ekki beint hvort það er að aukast, en það er vakning gagnvart sjúkdómnum þannig að ef þú veist að hverju þú ert að leita þá ertu líklegri til þess að finna það. Það eru líklega menningarlegar orsakir fyrir því að þetta er algengari sjúkdómur í dag en hann var áður.

Áður voru konur óléttar mestallt sitt líf eða með barn á brjósti en núna eru konur að seinka barneignum töluvert og fá því tíðablæðingar mánaðarlega í mörg ár og það eykur líkurnar á að fá legslímuflakk.“

Hann segir að í raun læknist konur aldrei alveg af sjúkdómnum en hægt sé að hjálpa mikið með réttri meðferð og greiningu. „Ég býst við að við eigum eftir að sjá lyfjameðferðina taka yfir í framtíðinni. Þótt það sé ekki alveg við sjóndeildarhringinn þá er verið að vinna að því að þróa lyf sem virkar vel á verkina, sem er ekki dýrt og sem er óhætt að taka í langan tíma. En fyrst og fremst verða læknar að grípa inn í fyrr en seinna, í stað þess að láta konurnar þjást af þessum verkjum í öll þessi ár,“ segir Jón Ívar Einarsson, skurðlæknir og prófessor, að lokum.

Legslímuflakk eða endómetríósa er algengari sjúkdómur en hann var áður.
Legslímuflakk eða endómetríósa er algengari sjúkdómur en hann var áður.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »