Farin til Svíþjóðar og fékk lán fyrir kostnaði

Áslaug Ýr Hjartardóttir.
Áslaug Ýr Hjartardóttir.

„Hún var mjög spennt að fara og lætur ekkert slá sig út af laginu þó að þetta hafi farið svona og ætlar bara að láta reyna á þetta fyrir Hæstarétti,“ segir Bryndís Snæbjörnsdóttir, móðir Áslaugar Ýrar Hjartardóttur, sem barist hefur fyrir því að fá endurgjaldslausa túlkaþjónustu sem hún þarf á að halda.

Áslaug Ýr lagði af stað til Svíþjóðar í morgun þar sem hún mun næstu daga sækja sum­ar­búðir fyr­ir dauf­blind ung­menni frá Norður­lönd­un­um, en að óbreyttu fær Áslaug ekki endurgjaldslausa þá aðstoð og túlkaþjón­ustu sem önn­ur ung­menni á Norður­lönd­un­um fá sem einnig sækja sum­ar­búðirn­ar. Sjálf hefur Áslaug fengið lán til að standa straum af kostnaði við túlkaþjónustu á meðan hún er í sumarbúðunum.

Áslaug, sem er með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, stefndi Sam­skiptamiðstöð heyrn­ar­lausra og heyrn­ar­skertra og ís­lenska ríkinu fyrr í sumar fyrir mismunun en á föstudag voru SSH og ríkið sýknuð í héraði af kröfu Áslaugar.

Situr ekki við sama borð og aðrir jafnaldrar

„Hún er náttúrlega bara með örorkulífeyri, hún hefur ekki sömu tækifæri og jafnaldrar hennar til að afla tekna því hún fær ekki einu sinni vinnu. Þó að hún sæki um vinnu þá er atvinnumarkaðurinn ekkert að taka vel á móti henni,“ segir Bryndís. „Þó hún hafi bæði fullt af hæfileikum, vilja og náttúrulega drauma og þrá til þess að geta aflað sér tekna til að gera hluti sem eru sambærilegir við það sem að önnur ungmenni á sama aldri gera.“

Áslaug er þó ekki ein í þessum sporum að sögn Bryndísar en það sama eigi við gagnvart fötluðu fólki almennt. „Ísland hefur fullgilt til dæmis samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem að ætti að tryggja henni þennan rétt en lögin virðast ekki ná yfir það,“ segir Bryndís.

Takmörkuðu fjármagni ráðstafað til túlkaþjónustu

Í niðurstöðum héraðsdóms kemur fram að SHH sé falið að sjá til þess að fjármagni sem ráðstafað sé til endurgjaldslausrar táknmálstúlkunar dugi út árið og að stofnunin skuli gæta jafnræðis meðal notenda þjónustunnar. Fyrir tímabilið júlí til september á þessu ári séu til úthlutunar 870 tímar eða 8.816.560 krónur fyrir um 250 einstaklinga. Myndi kostnaður vegna sumarbúðanna í Svíþjóð nema um 18% af því fé sem væri til umráða. 

Þannig hefði ákvörðun um að veita Áslaugu umrædda túlkaþjónustu í Svíþjóð orðið til þess að fjármagn sem ætlað væri til endurgjaldslausrar túlkaþjónustu fyrir tímabilið hvorki enst út fjórðungstímabilið né hefði jafnræði notenda verið virt að því er segir í dómnum.

„Þetta tók alveg á hana. Það að þurfa að sitja þarna og hlusta á málsmeðferðina þar sem var verið að opinbera það í raun og veru að hennar þarfir kostuðu meira en þarfir annarra,“ segir Bryndís. „Hún lét sig hafa það að sitja undir því og láta það ekki brjóta sig niður, en auðvitað bognar hún við þetta. Þetta eru átök og það þarf kjark og áræðni til að takast á við þetta. Það er svo mikilvægt að fólk eins og hún taki þennan slag því það er fullt af öðru fólki sem að bara tekur ekki slaginn vegna þess að það treystir sér ekki í það.“

Á það ekki einungis við um baráttu fyrir túlkaþjónustu heldur hvers konar þjónustu sem fatlað fólk þarf á að halda. „Þetta skiptir svo miklu máli bara fyrir heildina og Áslaug horfir þannig á það, hún er ekki bara að berjast fyrir sjálfa sig, hún er að hugsa þetta heildrænt,“ segir Bryndís.

Sterk viðbrögð í samfélaginu

Áslaug og Bryndís hafa fundið sterk viðbrögð frá samfélaginu og hafa fengið skilaboð frá fólki sem vill leggja Áslaugu lið til að standa straum af kostnaði, einkum í ljósi þess að skattfé sé ekki varið í það. Þó að þær finni styrk í velvild samfélagsins sé ekki sjálfsagt að taka ákvörðun um að þiggja fé frá almenningi. Þannig ætti það ekki að þurfa að vera.

„Þetta er ákveðið jöfnunartæki og þess vegna höfum við þetta í gegnum skattkerfið en ekki á kostnað einstaklinganna því að þetta er breytilegur kostnaður eftir einstaklingum og eftir þörfum. Og fólk er líka bara misjafnt, það er ekkert víst að allir séu í sömu stöðu og Áslaug að hafa áhuga fyrir því að gera þetta. En þetta skiptir hana mjög miklu máli, það er alveg ljóst,“ segir Bryndís.

Áslaug er ákveðin í að áfrýja dómnum til Hæstaréttar og er málinu því ekki lokið. „Það kemur í ljós hvað Hæstiréttur segir, en undanfarið hafa gengið dómar sem hafa ekki verið mannréttindum í hag,“ segir Bryndís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert