Ólst nánast upp í hvolpakassanum

Margrét með son sinn Dag, hjá þeim er Úlfur, hundur …
Margrét með son sinn Dag, hjá þeim er Úlfur, hundur sem passaði vel upp á syni hennar þegar þeir voru litlir, lét vita þegar þeir vöknuðu.

Á æskuheimili Margrétar Kjartansdóttur, Ólafsvöllum á Skeiðum, ræktuðu foreldrar hennar íslenska fjárhunda. Hún eignaðist góða vini í þeim, en Lísa og Kátur eru eftirminnilegust af tryggum og ljúfum félögum. Margrét ætlar að segja frá æskuárum með hundum á morgun, á Degi íslenska fjárhundsins.

Íslenski fjárhundurinn er fyrst og fremst orðinn fjölskylduhundur, miklu meira en hann var áður. Hann var meira notaður sem smalahundur og enn nýtist hann sem slíkur, eðlið er til staðar. Hann er með afskaplega gott þefskyn og klár hundur, og fyrir vikið var hann flinkur að finna fé ef það hafði lent í fönn, eða fólk ef því var að skipta. Hann er enn nýttur sem leitarhundur, en langflestir íslenskir fjárhundar eru þó fjölskylduhundar í dag, enda er hann einstaklega tryggur eigendum sínum. Hann er mjög þægilegur á heimili, er í þægilegri stærð og ef fólk er í útivist þá fer hann hiklaust í fjallgöngur og getur verið með við nánast hvað sem fólk er að gera í frístundum sínum. Hann fer létt með að hlaupa á eftir hesti hjá hestamönnum, en hann er fyrst og fremst rólegur og þægilegur heimilishundur. Hann er líka afskaplega barngóður og sjálf átti ég íslenskan fjárhund þegar synir mínir voru litlir. Sá hét Úlfur og hann passaði afskaplega vel upp á litlu drengina, kom alltaf og sótti mig ef börnin vöknuðu í vagninum úti. Þessi tryggð og ljúflingseinkenni gera hann að yndislegum félaga,“ segir Margrét Kjartansdóttir, sem ætlar að flytja erindi á morgun, á Degi íslenska fjárhundsins, og segja frá bernsku sinni og uppvaxtarárum á Ólafsvöllum á Skeiðum, þar sem foreldrar hennar ræktuðu íslenska fjárhunda.

Vildu ekki láta hann glatast

Hlutverk íslenska fjárhundsins hér áður var að smala fé og …
Hlutverk íslenska fjárhundsins hér áður var að smala fé og leita að fé sem varð undir fönn að vetrum, jafnvel líka fólki. mbl.is/Eggert Jóhannesson


„Foreldrar mínir, Sigríður Pétursdóttir og Kjartan Georgsson, fluttu úr Reykjavík að Ólafsvöllum árið 1959 og tóku að sér þetta hlutverk að rækta upp íslenska fjárhundinn. Þau heilluðust af honum þegar þau sáu einn slíkan á bæ sem þau komu á. Mamma var ákveðin í að eignast íslenskan fjárhund og henni tókst það, með hjálp Páls Pálssonar, þáverandi yfirdýralæknis. Þau fengu fyrstu íslensku fjárhundana um 1967, þegar ég var sex ára. Þetta vatt upp á sig og mamma og pabbi fengu bæði áhuga á að láta íslenska fjárhundinn ekki glatast. Þau unnu mikið starf í að koma í veg fyrir það, fluttu meðal annars inn tvo hunda frá Bretlandi sem Mark Watson hjálpaði þeim að fá, en hann var mikill Íslandsvinur og hafði flutt íslenska fjárhunda út héðan til síns heimalands í kringum 1950.“

Þótti svo skrýtið að mamma var tekin fyrir í áramótaskaupi

Margrét segir að vissulega hafi verið meira af hundum á æskuheimili hennar á Ólafsvöllum en var á meðalheimili.

„Mér fannst allir þessir hundar mjög skemmtilegir og naut þess að vera með þeim, enda hef ég verið hundakerling frá því ég man eftir mér. Auðvitað voru oft hvolpar á Ólafsvöllum og ég ólst nánast upp í hvolpakassanum,“ segir hún og hlær.

„Hundarnir voru hluti af hversdagslífi okkar í fjölskyldunni og þetta þótti nokkuð skrýtið á þessum tíma, nógu skrýtið til þess að mamma var tekin fyrir í áramótaskaupinu,“ segir Margrét og hlær.

Margrét ræktar nú dvergschnauzer og írskan setter. Hún starfar líka …
Margrét ræktar nú dvergschnauzer og írskan setter. Hún starfar líka sem hundasnyrtir. mbl.is/Hanna


Kátur gagnaðist okkur við að sækja kýrnar

Hún segir einstaklingana að sjálfsögðu misjafna í hópi þeirra íslensku fjárhunda sem hún hefur kynnst í gegnum tíðina.

„Nokkrir þeirra voru í meira uppáhaldi hjá mér en aðrir, ég man sérstaklega eftir tíkinni Lísu, hún var minn hundur og fylgdi mér eins og skugginn. Við Lísa vorum nánast gerðar útlægar úr feluleikjum því Lísa var fljót að finna krakkana, það var ekki vinsælt hjá þeim sem voru að fela sig. Pabbi átti líka eftirminnilegan og gríðarlega duglegan smalahund sem hét Kátur. Hann gagnaðist okkur krökkunum vel þegar við sóttum kýrnar á morgnana, en það var kúabú heima á Ólafsvöllum og hrossarækt. Hundarnir tóku þátt í daglegum bústörfum og Kátur var aðalsmalahundurinn á þeim tíma sem ég var krakki.“

Margrét segist ekki eiga íslenskan fjárhund núna, en á heimili hennar eru að sjálfsögðu hundar, þeir eru af tegundunum dvergschnauzer og írskur setter, en Margrét ræktar þær tegundir.

Æskuárin. Margrét og tíkin Lísa voru óaðskiljanlegar.
Æskuárin. Margrét og tíkin Lísa voru óaðskiljanlegar.


„Eftir að íslenski hundurinn var ekki lengur í útrýmingarhættu, en margt gott fólk komið að því að koma í veg fyrir það, fór mamma að flytja inn dvergschnauzer. Ég heillaðist af þeim,“ segir hundakonan Margrét sem starfar nú sem hundasnyrtir.

Dagur íslenska fjárhundsins

Dagur íslenska fjárhundsins er á morgun, þriðjudag 18. júlí. Þema dagsins í þetta sinn er nútímahlutverk íslenska fjárhundsins. „Enn gegnir íslenski fjárhundurinn sínu hlutverki sem sveitahundur en hann hefur sannarlega fengið verkefni í viðbót.

Á Degi íslenska fjárhundsins í fyrra var farið í gönguferð …
Á Degi íslenska fjárhundsins í fyrra var farið í gönguferð með hunda í kringum Tjörnina í Reykjavík. Eigendur voru sumir í sínu fínasta pússi. mbl.is/Styrmir Kári


Íslenski fjárhundurinn er Rauða kross-hundur sem fer í heimsóknir á hjúkrunarheimili, hann er einnig lestrarhundur og hlustar á börn lesa fyrir sig, bæði í grunnskóla þar sem sömu börnin lesa fyrir hundinn í margar vikur sem og á Borgarbókasafninu í Grófinni. Eins er íslenski fjárhundurinn stoð og stytta margra aldraðra sem öðlast betri heilsu með því að ganga úti með sinn góða vin. En fyrst og fremst er íslenski fjárhundurinn einstakur félagi og hluti af sinni fjölskyldu,“ segir í tilkynningu um Dag íslenska hundsins.

Formleg dagskrá verður í hádeginu í Reykjavík á Kaffi Meskí, Fákafeni 9, en þá flytja þrjár konur erindi þar sem íslenski fjárhundurinn kemur við sögu:

• LESIÐ FYRIR HUND – Margrét Sigurðardóttir segir frá mastersritgerð sinni.

• ALIN UPP MEÐ ÍSLENSKA FJÁRHUNDINUM – Margrét Kjartansdóttir segir frá bernsku sinni og uppvaxtarárum á Ólafsvöllum.

• LJÓSMYNDIR OG SÖGUR REYKJADALSHUNDANNA – Brynhildur Inga Einarsdóttir kynnir bók sína.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert