Örlagaríkt bensínstopp

Elínborg hvetur alla til að hreyfa sig reglulega hvort sem …
Elínborg hvetur alla til að hreyfa sig reglulega hvort sem það er gert með fjallgöngum eða á jafnsléttu. mbl.is/Árni Sæberg

„Það skemmtilegasta er útsýnið. Maður verður alltaf vitni að nýju útsýni. Þótt maður sé búinn að fara ótal sinnum á sama fjall sér maður alltaf eitthvað nýtt. Maður fer aldrei svo oft á fjall að maður sjái ekki eitthvað sem hefur farið framhjá manni áður.“

Þetta segir Elínborg Kristinsdóttir fjallagarpur. Þótt Elínborg sé komin á áttræðisaldur er hún ekki af baki dottin í fjallamennskunni. Raunar er hún rétt að byrja, en Elínborg var komin yfir sextugt þegar hún hóf að ganga á fjöll. Aðspurð hvernig það kom til hlær hún og andvarpar lítillega. „Ég er nú búin að segja þá sögu svo oft. En við hjónin vorum að leggja af stað í sumarfrí og stoppuðum á bensínstöð. Þar rakst ég á litla bók sem UMFÍ hafði gefið út um fjallgöngur. Ég ákvað að kippa henni með og þar kviknaði áhuginn.“

Fyrstu árin fór Elínborg með manni sínum, Guðna Sigurjónssyni, en eftir að hann féll frá skráði hún sig í Ferðafélag Íslands og hefur gengið með því síðan. Fyrst um sinn gekk hún aðeins á sumrin en síðan 2010 hefur hún farið í göngur allan ársins hring. „Þetta er ákveðið prógramm sem er sett af stað eftir áramót og fram í maí. Svo byrjar það aftur í september og gengið er fram til áramóta,“ segir Elínborg. Hún situr þó ekki aðgerðarlaus í pásunni á sumrin en hún er nýkomin af Snæfellsjökli.

Drangey í uppáhaldi

Upp á Úlfarsfell eru margar mismunandi leiðir að sögn Elínborgar.
Upp á Úlfarsfell eru margar mismunandi leiðir að sögn Elínborgar.


Elínborg segir hópinn sem tekur þátt í göngunum nokkuð breiðan. „Þetta er fólk á öllum aldri, héðan og þaðan.“ Aðspurð segir Elínborg erfitt að gera upp á milli fjalla því þau séu svo misjöfn. „Ég var nú í viðtali hjá Ferðafélaginu um daginn og þar sagði ég Mælifellshnjúkur, bara til að nefna eitthvað,“ segir Elínborg en bætir við að Drangey sé líka í uppáhaldi. Þangað hafi hún farið árið 2012. Sú ferð sé öðruvísi en flestar aðrar. Til að byrja með þarf að sigla út í eyna og svo þarf að koma sér upp drangana með hjálp kaðla. „Þetta er kannski ekki fyrir mjög lofthrædda,“ segir Elínborg og hlær.

Elínborg hefur tvisvar haldið utan í göngur. Eitt sinn til Skotlands í svonefnda Skotgöngu um skosku hálöndin og í hitt skiptið til Spánar þar sem hún gekk Jakobsveginn að hluta til með ferðaþjónustufyrirtækinu ÍT-ferðum.

Elínborg er ekki af baki dottin því nú í lok mánaðar er stefnan sett á Vestfirði þar sem Ferðafélagið stendur fyrir göngunni Ég held ég gangi heim. Gengið verður að Galtarvita við Keflavík á norðanverðum Vestfjörðum en gangan tekur fimm daga.

Útivist við borgarmörk

Ferðafélagið stendur fyrir fjallgöngum upp á Úlfarsfell alla fimmtudaga yfir vetrarmánuðina og hefur Elínborg farið ófáar ferðirnar. Hún segir hafa komið sér helst á óvart hversu margar mismunandi leiðir eru upp fjallið. „Hér áður fyrr hélt ég að það væri bara ein leið upp, en svo er alls ekki,“ segir hún. Fjallið er í Mosfellssveit rétt utan bæjarmarkanna en það er aðeins tæpir 300 metrar á hæð og því tilvalið fyrir fjölskyldufók með börn. Úr hlíðum fjallsins er gott útsýni yfir borgina og skerjagarðinn.

Ferðafélagið hefur göngurnar aftur í september undir leiðsögn Reynis Traustasonar en hann kleif fjallið í þúsundasta sinn í maí. Þátttaka er ókeypis og eru allir velkomnir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert