Þingnefnd ræðir uppreist æru í fyrramálið

Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, kallaði eftir fundi í stjórnskipunar- …
Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, kallaði eftir fundi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Málið er að mínu mati mjög brýnt vegna þess að það er greinilegt að það veldur ólgu í samfélaginu þetta ógagnsæi sem þarna er á ferðinni,“ segir Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, í samtali við mbl.is.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis kemur saman til fundar í fyrramálið til að ræða reglur um uppreist æru. Fyrir nefndina munu koma fulltrúar dómsmálaráðuneytisins og Lögmannafélags Íslands en það var Svandís sem óskaði eftir fundinum.

Í ósamræmi við hugmyndir um sanngirni og réttlæti

Að undanförnu hefur talsvert verið fjallað um upp­reist æru eft­ir að lögmaður­inn Robert Dow­ney, áður Róbert Árni Hreiðarsson, fékk uppreist æru og gat því endurheimt lögmannsréttindi sín en hann var árið 2008 dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn fjórum stúlkum.

„Það kemur þinginu alltaf við hvernig framkvæmd laga er og þarna heyrir það sérstaklega undir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd af því að þarna er um að ræða í raun og veru lagaumhverfið eins og það er núna og framkvæmdina eins og hún er núna,“ segir Svandís, spurð um ástæður þess að hún kalli eftir fundinum.

Verður á fundinum meðal annars farið yfir umgjörð laganna með fulltrúum dómsmálaráðuneytisins og rætt hvernig framkvæmd er háttað við uppreist æru. „Og hvernig stendur á því að [þetta sé] ógagnsætt og greinilega algjörlega í ósamræmi við hugmyndir fólks um sanngirni og réttlæti,“ að sögn Svandísar.

Auk fulltrúa dómsmálaráðuneytisins koma einnig fyrir nefndina fulltrúar frá Lögmannafélagi Íslands. „Við ætlum að fara þá kannski sérstaklega yfir þann hluta sem lýtur að lögmannsréttindunum, málflutningsréttindunum, og mögulega líka fara yfir það hvernig þessum málum er háttað í löndunum í kring um okkur,“ segir Svandís.

Aukin krafa um gagnsæi

Spurð um væntingar sínar til fundarins segist Svandís fyrst og fremst vonast til þess að fá skýrari svör. „Krafan um gagnsæi hefur aukist mjög mikið undanfarin ár og það gildir um þessi mál eins og önnur. Það að við sitjum uppi með það að ráðherra málaflokksins þegar þessi ákvörðun er tekin og forseti Íslands telja sig standa frammi fyrir orðnum hlut og í raun og veru ekki vita um hvað málið snýst, það er óásættanlegt.“

Í samtali við Fréttablaðið í dag segist Brynjar Níelsson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, ekki vera viss um að málið heyri undir nefndina og að vafist hafi fyrir honum að fundurinn færi fram á þessum árstíma.

„Ég lít ekki á þennan fund sem nauðsynlegan út af neyðarástandi og ekkert sem gat ekki beðið fram yfir miðjan ágúst en einhverjum fannst mikilvægt að gera þetta strax og þá var ég ekkert að standa í vegi fyrir því,“ sagði Brynjar í samtali við Fréttablaðið.

Svandís segist ekki geta svarað fyrir orð Brynjars en fagnar því að boðað hafi verið til fundarins. „Hann varð við því að lokum að halda fundinn, þannig að það varð niðurstaðan og ég er bara mjög ánægð með það,“ segir Svandís.

Fram hefur komið að dóms­málaráðherra hyggst í haust leggja fram frum­varp um breyt­ingu á upp­reist æru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert