Veitir innsýn í hugarheim Japana

Myndin er tekin upp í Japan, en þar ræðir hann …
Myndin er tekin upp í Japan, en þar ræðir hann við japönsk ungmenni á tvítugsaldri um framtíðarsýn þeirra, með fólksfækkun í huga. Ljósmynd/Stefán Þór Þorgeirsson

Stefán Þór Þorgeirsson, 24 ára nemi við HÍ, gaf nýlega út heimildarmyndina „Youth in Japan“ sem fjallar um japönsk ungmenni og upplifun þeirra á japönsku samfélagi og menningu. Stefán segir myndina líklega vera fyrst sinnar gerðar, sem „fyrsta íslenska-japanska heimildarmyndin“.

Í myndinni beinir Stefán sjónum sínum að vandamálum sem Japanir þurfa á kljást við en þá aðallega fólksfækkun og áhrif hennar á japanskan efnahag og samfélag. Í henni ræðir hann við japönsk ungmenni á tvítugsaldri um framtíðarsýn þeirra, með þessi vandamál í huga. Í Youth in Japan ber Stefán einnig saman japanska menningu við íslenska, sem er að sögn hans, talsvert frábrugðin þeirri fyrrnefndu.

Stefán Þór Þorgeirsson, 24 ára nemi við HÍ, hefur haft …
Stefán Þór Þorgeirsson, 24 ára nemi við HÍ, hefur haft mikil tengsl við Japan síðan hann fór þangað í skiptinám árið 2011. Ljósmynd/Stefán Þór Þorgeirsson

Veita innsýn í hugarheim japanskra ungmenn

Helsta markmið myndarinnar er, samkvæmt Stefáni, að veita innsýn í japanska menningu og hugsunarhátt þjóðarinnar en þá sérstaklega hugsunarhátt þeirra sem yngri eru. Hann segist vona að ungu fólki á Íslandi gefist þannig tækifæri til að sjá samfélag sitt í öðru ljósi, með því að setja sig í spor japanskra ungmenna og bera hugsunarhátt þeirra saman við sinn eigin.

Í aðsendri fréttatilkynningu segist Stefán hafa haft mikil tengsl við Japan síðan hann fór þangað í skiptinám árið 2011. Hann heimsótti Japan sumarið 2016 og ákvað þá að nýta tækifærið og taka myndina. Hann gefur hana út í gegnum miðil sinn „Martian Travels“, sem hann notar til að dreifa myndum og myndböndum úr ferðalögum og ævintýrum sem verða á vegi hans.

Hér má sjá heimildarmynd Stefáns:



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert