Fjölmiðlar hringt sífellt í skipið

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari í Héraðsdómi Reykjaness í dag.
Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari í Héraðsdómi Reykjaness í dag. mbl.is/Ófeigur

Skipstjóri grænlenska togarans Polar Nanoq segist ekki hafa neitt annað en gott að segja um Thomas Olsen, sem ákærður er fyrir að hafa myrt Birnu Brjánsdóttur í janúar síðastliðnum.

Skipstjórinn var einn sjö skipverja sem báru vitni í Héraðsdómi Reykjaness í dag, en hann sagðist hafa verið skipstjóri um borð frá árinu 2005.

„Ég hitti Nikolaj klukkan tólf, eitt, um miðjan dag. Hann var vanur að koma snemma á fætur og ég spurði hann hvers vegna hann hefði sofið svona lengi. Hann sagði að þeir hefðu verið í bænum og ég sagði að þeir ættu ekkert að vera í bænum,“ sagði skipstjórinn um ferðir Nikolaj Olsen, félaga Thomasar, á laugardeginum 14. janúar.

„Ég veit að það var um sexleytið,“ svaraði skipstjórinn spurður hvenær Nikolaj hefði komið um borð í skipið.

Þá hefði hann séð Thomas síðar um daginn keyra rauðu Kia Rio-bifreiðina út á enda bryggjunnar í Hafnarfirði og hann hefði verið þar í fimm til tíu mínútur. Að lokum hefði hann tjáð Thomasi að hann þyrfti að skila bílnum því skipið væri að fara að sigla úr höfn.

Verjandi Thomasar, Páll Rúnar M. Kristjánsson hæstaréttarlögmaður.
Verjandi Thomasar, Páll Rúnar M. Kristjánsson hæstaréttarlögmaður. mbl.is/Ófeigur

Fékk skilaboð frá kærustu sinni

Spurður um samskipti sín við Thomas eftir að hann hefði lesið á netinu um rannsókn á hvarfi Birnu sagðist skipstjórinn hafa nefnt þetta við hann.

„Ég fór að ræða við hann um þetta, eftir að hafa séð þetta á netinu, og þá sagði hann að það hefðu verið tvær stelpur í bílnum og að hann hefði keyrt þær upp í Krónu.“

Thomas hefði þá sýnt honum textaskilaboð frá blaðamanni.

„Thomas kom og sýndi mér SMS-ið og ég sagði við hann: „Leggðu þig bara.““

Þá hafi hann fengið önnur skilaboð til viðbótar frá kærustu sinni á Grænlandi, en í þeim hafi staðið: „Þú ert kannski grunaður um þetta.“

Lögreglan spurði þriggja spurninga

Skipstjórinn sagðist hafa sagt við Thomas að hann hefði ekkert að óttast ef hann hefði ekki gert neitt af sér. Thomas hafi þá sagst ekkert rangt hafa gert.

Sagði hann fjölmiðla sífellt hafa hringt í skipið. Eitt sinn hafi hann tekið upp tólið en þá hafi yfirlögregluþjónn verið á línunni.

Lögreglumaðurinn hafi spurt þriggja spurninga, hvort vopn væru um borð, hversu langt þeir ættu eftir í land og loks hvar þeir myndu koma að landi. Var honum þá tjáð að lögreglan myndi koma til skipsins, vopnuð um borð í þyrlu.

Síðar hefði lögregla komið um borð, handtekið Thomas og Nikolaj og fært þá hvorn í sína káetuna. Hann hefði þá afhent lögreglunni úlpu Thomasar daginn eftir að skipið kom til hafnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert