Fólk sjái sjálft sig í sýningunni

Stjórn félagsins á góðri stund en Ása er hér þriðja …
Stjórn félagsins á góðri stund en Ása er hér þriðja frá hægri. Leikarar verða valdir í ágúst. Ljósmynd/Ása Valdimarsdóttir

„Amerískt sjónvarpsefni er svo uppstillt og óraunverulegt, en ég held að íslenskir unglingar tengi betur við þetta. Það er einmitt það sem við erum að reyna með þessari leiksýningu. Að fólk sjái sjálft sig í karakterunum og atburðum.“

Þetta segir Ása Valdimarsdóttir, formaður Listafélags Verzlunarskóla Íslands, en Listafélagið vinnur nú að uppsetningu á leikverki byggðu á norsku unglingaþáttunum SKAM sem tröllriðið hafa íslensku samfélagi undanfarin misseri.

Undirbúningur leiksýningarinnar er rétt byrjaður enda skólaárið ekki hafið. Listafélagið leitar nú að unglingum á aldrinum 15 til 20 ára til að mæta í stutt viðtal næstu helgi þar sem leikstjórinn hyggst spyrja fólk um ýmis málefni sem liggja á því.

„Okkur langaði að setja upp sýningu í svokölluðum „devised“ stíl,“ segir Ása, en um er að ræða listform sem á íslensku gengur undir nafninu samsköpun. Þar þróast handritið í samvinnu hóps, svo sem leikaranna sjálfra, í stað þess að koma fullmótað frá handritshöfundi. Dæmi um slíka sýningu er Njála sem sýnd var í Borgarleikhúsinu í fyrra við góðar undirtektir.

Ekki endurtekning á þáttunum

SKAM-þættirnir norsku voru einmitt unnir á svipaðan hátt. „Leikstjórinn fór um allan Noreg, tók viðtöl við unglinga og spurði hver væru helstu málin sem þau væru að fást við,“ segir Ása. „Okkur fannst þetta góð hugmynd og ákváðum að grípa gæsina þar sem SKAM er rosalega vinsælt um þessar mundir.“

Ása segir leikritið þó ekki vera endurtekningu á því sem fram kemur í þáttunum. Nýir karakterar verði til og söguþráður í kringum hvern þeirra byggður á vandamálum sem íslenskir unglingar ganga í gegnum. Leikstjórinn, Dominique Gyða Sigrúnardóttir, er þegar farin að skrifa beinagrind að handritinu, en hún leikstýrði einnig leikriti Verzló í fyrra. Kjötið á beinin kemur síðan þegar unnið verður upp úr viðtölunum sem fram fara næstu helgi. Ása hvetur alla unglinga á aldrinum 15 til 20 ára til að vera með. Viðtölin verða nafnlaus og enginn viðstaddur utan leikstjórinn. Nánari upplýsingar um tímasetningu og skráningu má finna á facebooksíðu Listafélagsins.

Á dögunum gáfu Verzlingar út stikluna Skömm, til að auglýsa leikritið, en það má nálgast á facebooksíðunni. Myndbandið er í anda upphafssenu fyrstu seríu SKAM, sem er áhorfendum þáttanna sjálfsagt í fersku minni. Hráar, sundurlausar klippur þar sem stórum spurningum er varpað fram, meðal annars um tilgang lífsins og áhrifamátt peninga. Verkið verður frumsýnt 10. nóvember nk., en enn er óljóst hvar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert