Gekk upp landganginn með handklæði

Skipverjar Polar Nanoq gefa skýrslu fyrir dómi í dag.
Skipverjar Polar Nanoq gefa skýrslu fyrir dómi í dag. mbl.is/Ófeigur

Fjölskipaður dómur er í dómsmálinu sem héraðssaksóknari hefur höfðað vegna andláts Birnu Brjánsdóttur. Dómsformaður er Kristinn Halldórsson og ásamt honum skipa dóminn þau Ástríður Grímsdóttir og Bogi Hjálmtýsson.

Annar stýrimaður um borð í Polar Nanoq var sá þriðji til að bera vitni í málinu en alls verða teknar skýrslur af sjö skipverjum í dag.

„Ég þekki hann vel því hann var sá fyrsti sem ég hitti þegar ég byrjaði og við ferðuðumst saman,“ svaraði hann spurður um tengsl sín við Thomas, en stýrimaðurinn hóf störf í ársbyrjun 2016.

Sýndi skilaboðin að eigin frumkvæði

Sagði hann að Thomas hefði sýnt honum skilaboð frá blaðamanni um horfna stúlku. Blaðamaðurinn hefði þá einnig spurt um bíl í skilaboðunum.

„Hann var mjög taugaveiklaður þegar hann sá þessi skilaboð og ég sagði honum að ræða þetta við skipstjórann.“

Þá sagðist stýrimaðurinn hafa talið að Thomas væri taugaveiklaður vegna þess sem hann hefði sjálfur sagt; að hann vissi ekkert um þetta sem hann væri sakaður um.

Verjandi Thomasar spurði hann hvort Thomas hefði sýnt honum textaskilaboðin að eigin frumkvæði. Játti vitnið því.

Stýrimaðurinn sagðist enn fremur hafa heyrt um borð að Thomas og Nikolaj hefðu verið með tvær stúlkur í bílnum sem Thomas leigði.

Dómþingið er haldið í Héraðsdómi Reykjaness.
Dómþingið er haldið í Héraðsdómi Reykjaness. mbl.is/Ófeigur

Töfðust um tvo daga í höfninni

Þriðji vélstjóri var því næst kallaður til vitnisburðar, en hann hóf störf um borð í árslok 2014.

Sagði hann skipið hafa átt að fara frá bryggju á fimmtudegi en það hefði tafist vegna þess að þurft hefði að bíða eftir mönnum frá Grænlandi. Skipstjórinn hefði því sagt við Olsen að hann gæti vel leigt sér bíl.

Á laugardagsmorgninum hefði Thomas gengið frá bílnum og upp landganginn með handklæði. Hurð á vinstri hlið bílsins hefði þá staðið opin. Aðspurður sagðist hann ekki hafa séð hvort handklæðið hefði verið rakt, þar sem það hefði verið samanbrotið.

Þá sagðist hann ekkert óvenjulegt hafa séð í fari Thomasar eftir að skipið hafi lagt úr höfn, og að hann vissi ekki hvort honum hefðu verið gefin róandi lyf um borð. „Þetta var allt í höndum fyrsta stýrimanns og skipstjórans.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert