Fara fjórir saman í hjólastól

Anna Birna Kjartansdóttir, Gunnar Karl Haraldsson og Kjartan Ólafsson Vídó …
Anna Birna Kjartansdóttir, Gunnar Karl Haraldsson og Kjartan Ólafsson Vídó fóru saman 10 kílómetra í fyrra. Ljósmynd/Kjartan Ólafsson Vídó

Eyjamaðurinn Gunnar Karl Haraldsson ætlar að ýta sér 10 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu í hjólastól til styrktar Reykjadals. Með í för verða þrír félagar hans, þeir Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari, Kjartan Ólafsson Vídó og Sigurjón Lýðsson. Saman skipa þeir félagar hópinn Vinir Gunnars Karls og ætla allir að fara 10 kílómetrana í hjólastól en Gunnar Karl gerði slíkt hið sama í fyrra og safnaði þá einn síns liðs um 450.000 krónum fyrir Reykjadal.

Vantar enn hjólastóla

Planið er að þeir fari allir samferða en Gunnar Karl segir í samtali við mbl.is að hann hafi örlitlar áhyggjur af félögum sínum, enda hafi þeir takmarkaða reynslu af því að ýta sér áfram í hjólastól.

„Ég hef engar áhyggjur af mér í þessu, þetta verður líklega eins og göngutúr fyrir mig,“ segir Gunnar Karl kíminn.

Gunnar Karl segir erfitt fyrir hópinn að setja sér tímamarkmið en það skipti máli hversu létta hjólastóla þeir nái að útvega sér. „Við erum að reyna að vinna í því að redda þessu. Hugmyndin er að fá jafnvel fyrirtæki til þess að aðstoða okkur við að redda stól og við myndum þá vera í treyjum merktum þeim fyrirtækjum sem leggja okkur lið,“ segir Gunnar Karl.

Að sögn Gunnars Karls er hlaupahópurinn ekki mikið að hugsa um tímamarkmið í hlaupinu. „Tíminn skiptir okkur engu máli. Ef við verðum lengi þá bara verðum við lengi, við erum fyrst og fremst að þessu til að styrkja gott málefni,“ segir hann. 

Gunnar Karl safnaði 450.000 krónum fyrir Reykjadal í fyrra. Á …
Gunnar Karl safnaði 450.000 krónum fyrir Reykjadal í fyrra. Á myndinni má einnig sjá Kjartan Ólafsson Vídó en hann hljóp með Gunnari Karli. Ljósmynd/Gunnar Karl Haraldsson

Vilja ná hálfri milljón

Gunnar Karl safnaði um 450.000 krónum fyrir Reykjadal í fyrra og hann dreymir um að gera enn betur núna. „Ég veit ekki hvort maður sé of vongóður svona mánuði fyrir hlaup og nýbúinn að skrá sig, en það yrði hrikalega gaman að ná milljón,“ segir Gunnar Karl en markmið hópsins er að ná hálfri milljón.

Það kom ekkert annað til greina en að safna áheitum fyrir Reykjadal og það leynir sér ekki að sumarbúðirnar eiga sérstakan stað í hjarta Gunnars Karls.

„Þegar ég fór þangað fyrst árið 2004, þá var ég að verða 10 ára gamall, hafði ég aldrei upplifað mig jafnan öðrum. Ég var alltaf undir alls staðar út af fötluninni en þarna eru bara allir jafnir og það er bara gert það sem þú vilt gera og ekkert vesen gert úr því,“ segir Gunnar Karl.

Staður þar sem allir eru jafnir

„Ef þig langar að fara í fótbolta í hjólastól þá er bara farið með þig í fótbolta í hjólastól. Þá eru þau [starfsfólk Reykjadals] bara með þér að ýta þér út um allt og það er ógeðslega gaman hjá þeim,“ segir Gunnar Karl. „Að fá tækifæri til þess að vera á stað þar sem allir eru jafnir, það er bara ágætislýsing á Reykjadal held ég,“ segir Gunnar Karl að lokum.

Gunnar Karl hefur frá barnæsku glímt við erfiðan taugasjúkdóm og árið 2012 var vinstri fótur hans tekinn af við hné. Gunnar Karl býr nú í Reykjavík og stundar nám í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands. 

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fer fram 19. ágúst og hægt er að heita á Vini Gunnars Karls á heimasíðu Hlaupastyrks. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert