Olíumengunin „mjög alvarlegur atburður“

Olían hefur borist niður Grafarlæk og sest í gróður við …
Olían hefur borist niður Grafarlæk og sest í gróður við bakka lækjarins og í fjöru Grafarvogs. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Það er ljóst að það hefur bara orðið mjög alvarlegur atburður og við erum að takast á við afleiðingarnar,“ segir Snorri Sigurðsson, verkefnastjóri hjá skrifstofu umhverfis og garða hjá Reykjavíkurborg. Snorri hefur, ásamt heilbrigðiseftirlitinu, Veitum og slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, komið að máli vegna olíumengunar í Grafarlæk í Grafarvogi.  

„Þetta er auðvitað dýrmætt náttúrusvæði og þess vegna höfum við verið með í þessu öllu saman,“ segir Snorri. „Við reynum að nýta þau úrræði sem við höfum en þetta er erfitt og leiðinlegt mál.“

Hann segir myndina hafa verið að skýrast smátt og smátt en þó er enn á huldu hver uppruni mengunarinnar er. „Það var greinilega heilmikil olía sem barst þarna niður alla vega einu sinni, mögulega oftar, en við teljum núna að þetta hafi sennilega verið einn stór viðburður.“ 

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins vinnur að því að hreinsa olíu úr Grafarlæk.
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins vinnur að því að hreinsa olíu úr Grafarlæk. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Talsverð olía situr einnig í gróðri meðfram læknum en í kjölfar mikillar rigningar í gær jókst vatnsmagn í læknum. Skolaði þá meiri olíu af bökkunum áfram með læknum og niður í fjöru. Því var kallað eftir aðstoð slökkviliðsins sem kom svokölluðum pulsum fyrir í læknum sem sjúga í sig olíu og hemja þannig útbreiðslu mengunarinnar.

„Það er náttúrulega slatti af olíumengun þarna í gróðrinum þannig að þetta ástand getur verið viðvarandi í töluverðan tíma,“ segir Snorri. Hann kveðst hafa mestar áhyggjur af því að olían berist út í fjöru en hún sé hvað viðkvæmust gagnvart menguninni. Auk þess að nota pulsurnar sem sjúga í sig olíu er jafnframt verið að skoða aðrar leiðir sem geti dregið úr eða hægt á útbreiðslu olíumengunarinnar.

Lækurinn á upptök sín við Bullaugu, sunnan Vesturlandsvegar. Í lækinn …
Lækurinn á upptök sín við Bullaugu, sunnan Vesturlandsvegar. Í lækinn rennur svo ofanvatn úr Grafarholti og ofarlega austast úr Hálsahverfi. Þaðan rennur vatnið um um leiðslur, rör og opna skurði og sameinast læknum neðan við Vesturlandsveg og Stórhöfða og rennur síðan niður í Grafarvoginn sjálfan. Kort/mbl.is

„Í útlöndum hafa menn meðal annars notað hálm eða greinar til að hægja á þessu. Þá kannski hefur þetta meiri tíma til að fara í þessar pulsur sem geta gripið í sig ansi mikla olíu,“ segir Snorri. „En auðvitað á meðan á öllu þessu stendur og meðan við kannski getum ekki gert mikið meira þá náttúrlega heldur þetta áfram að skolast út en mun á einhverjum tímapunkti bara hætta og bara náttúran hreinsar þetta.“

Farfuglarnir mæta eftir nokkrar vikur

Með flóði og fjöru berst olíumengunin sem náð hefur niður í fjöru víðar um voginn og kveðst Snorri hafa einna mestar áhyggjur af áhrifum þessa á fuglalíf á svæðinu. Að svo stöddu eru þó engar vísbendingar um að mengunin hafi verið til vandræða fyrir fuglalífið í og við voginn að sögn Snorra.

„Auðvitað með tímanum minnkar þetta og brotnar niður þannig að við vonumst til þess að það gerist bara sem fyrst,“ segir Snorri. „En auðvitað eru þeir að éta þarna og manni líst ekkert á að þetta ástand verði svona mikið lengur. Þetta er mjög mikilvægt fuglasvæði og eftir nokkrar vikur mun allt fyllast þarna af farfuglum svo það er eins gott að þetta verði búið að hreinsa sig þá.“

Þegar vatnsyfirborðið í læknum hækkar kemst olían í bökkunum aftur …
Þegar vatnsyfirborðið í læknum hækkar kemst olían í bökkunum aftur í snertingu við vatnið. Ekki þarf nema nokkra dropa af olíu sem kemst í snertingu við vatn til að hún dreifist yfir stórt yfirborð þannig að mengunin virki mikil þó að ekki sé endilega um að ræða mikið magn af olíu. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert