Verið að skoða yfirgefinn bíl við Gullfoss

Maðurinn sem féll í Gullfoss í dag virðist hafa verið einn á ferð, en það hefur enginn gefið sig fram sem saknar hans. Þá er ekki vitað hverrar þjóðar hann er eða á hvaða aldursbili hann gæti verið. „Við vitum ekkert um hann enn sem komið er. Það er enginn sem saknar hans á staðnum,“ segir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, í samtali við mbl.is.

Maðurinn virðist ekki hafa orðið viðskila við ferðahóp á vegum ferðaþjónustufyrirtækis og því ólíklegt að hann hafi komið á staðinn með rútu. Hann gæti hafa komið einn á bíl. „Við erum að skoða bíl á staðnum en það er ekkert sem við getum staðfest með það ennþá,“ segir Sveinn.

Björn­inn, fær­an­leg aðgerða­stjórn­stöð Lands­bjarg­ar, er ný­lega kom­inn að Gull­fossi og björg­un­ar­sveit­ar­menn eru vel á annað hundrað tals­ins. Ekki er búið að taka ákvörðun um hversu lengi leit verður haldið áfram en björg­un­ar­sveit­ar­menn ganga bæði meðfram Ölfusá og leita að hon­um og leita að hon­um á bát­um. Þyrl­ur Land­helg­is­gæsl­unn­ar eru þó farn­ar af svæðinu.

Uppfært klukkan 21:37:

Björgunarsveitarmenn eru að verða búnir að kemba svæði niður að Brúarhlöðum, efsta hluta Hvítárgljúfurs. Verið er að taka ákvörðun um hvort leitarsvæðið verður stækkað, en það þykir þó líklegt. Veðurskilyrði til leitar eru góð.

Uppfært klukkan 22:02:

Önnur þyrla gæslunnar er komin aftur á vettvang og mun áfram aðstoða við leitina.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert