Heimur kvikmynda er alþjóðlegur

Ragnhildur Magnúsdóttir Thordarson.
Ragnhildur Magnúsdóttir Thordarson.

Ragnhildur Magnúsdóttir Thordarson, eða Ragga eins og hún er alltaf kölluð, er búsett í Los Angeles í Bandaríkjunum, þar sem hún starfar hjá hinum virta skóla New York Film Academy. Ragnhildur hefur tekið þátt í fjölda verkefna bæði erlendis sem og hér heima og var meðal annars ráðgjafi teymisins á bak við Simpson-þættina vinsælu þegar Íslandsþáttur þeirra var gerður.

„Þetta byrjaði þegar ég útskrifaðist með mastersgráðu í framleiðslu fyrir kvikmyndir og sjónvarp frá New York Film Academy í marsmánuði árið 2012. Ég fór frá Íslandi árið 2010 og útskrifaðist tveimur árum síðar,“ segir Ragnhildur Magnúsdóttir Thordarson en hún hefur á undanförnum árum gert það gott í Los Angeles í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum sem framleiðandi. Meðal verkefna sem Ragnhildur hefur fengist við má nefna stuttmyndir sem sýndar hafa verið á ýmsum kvikmyndahátíðum.

Árið 2012 valdi vefsíðan Filmbreak Ragnhildi besta framleiðandann fyrir eina slíka mynd. Mynd hennar nefndist Carlos & Brandi 2 og var framhald samnefndrar myndar, byggt á stuttum þáttum um íslensk-ameríska parið Carlos og Brandi. Þá gerði hún einnig heimildarmyndina From Oakland to Iceland. Ragnhildur starfar nú sem yfirmaður hjá inntökudeild New York Film Academy sem hefur umsjón með umsóknum nemenda um heim allan.

Ráðgjafi fyrir íslenska Simpsons

Ragnhildur ásamt dóttur sinni Stellu Lúnu sem er þriggja ára.
Ragnhildur ásamt dóttur sinni Stellu Lúnu sem er þriggja ára. Ljósmynd/Jose D. Rodriguez

„Áður en ég útskrifaðist vann ég meðal annars sem dagskrárgerðarkona í bæði útvarpi og sjónvarpi og sem kvikmyndagerðarkona. Svo ég hef fengist við framleiðslu í töluverðan tíma,“ segir Ragnhildur.

„Eftir að ég útskrifaðist fór ég að vinna sem framleiðandi og var í alls konar verkefnum tengdum því. Ég vann meðal annars fyrir Reebook og var ráðgjafi hjá teyminu sem framleiðir Simpson-þættina þegar Íslandsþáttur Simpsons var gerður. Ég framleiddi og skrifaði efni sem birtist á forsíðu grínsíðunnar Funny or Die. Í raun má segja að ég hafi verið í alls konar verkefnum. Svo æxlaðist það þannig að ég fór að vinna á alls konar viðburðum fyrir New York Film Academy.“

Margir að gera mjög góða hluti

Starfið var fjölbreytt að sögn Ragnhildar en eitt af þeim verkefnum sem féllu henni í skaut var að stýra hinum svokölluðu LA Events fyrir skólann. „Við vorum með gesti sem voru að koma til Warner Brothers Studio og halda svona spurt-og-svarað-viðburði. Það var fólk úr öllum áttum sem kom til okkar; handritshöfundar og leikarar meðal annars, til að mynda Linda Woolverton, Josh Brolin og Jonah Hill. Svo fengum við líka fólk sem var í kvikmyndagerð, kvikun (e. animation) og öðru slíku, fólk sem kannski ekkert allir þekkja en hefur engu að síður verið að gera frábæra hluti og á að baki mörg mjög flott verk. Þetta fólk var þarna samankomið til að miðla af reynslu sinni til nemenda. Þetta var mjög skemmtilegt starf.“ Ragnhildur er fædd og uppalin í Bandaríkjunum en hefur verið með annan fótinn á Íslandi alla tíð. Hún og eiginmaður hennar hafa búið í Los Angeles undanfarin ár.

Umhverfið mjög alþjóðlegt

New York Film Academy er meðal fremstu kvikmyndaskóla heims.
New York Film Academy er meðal fremstu kvikmyndaskóla heims.

Ragnhildur stýrði LA Events þangað til hún var komin átta mánuði á leið með sitt fyrsta barn. „Ég eignaðist dóttur mína Stellu Lúnu fyrir þremur árum, 38 ára gömul. Var svona aðeins í seinni kantinum til að verða mamma,“ segir Ragnhildur og hlær.

„Eftir barneignarfrí fór ég að vinna fyrir New York Film Academy og af því að ég þekkti skólann svo vel sjálf endaði ég á því að fara að vinna á skrifstofu skólans. Það æxlaðist svo bara þannig að ég fékk starfið sem ég er í núna. Ég stýri semsagt inntökudeildinni. Ég elska þennan skóla, deildirnar innan hans vinna mikið og vel saman og eitt af því sem mér finnst svo gott við hann er að meira en helmingurinn af nemendum er alþjóðlegur. Þetta er mjög alþjóðlegt umhverfi og það er gaman að vera innan um fólk sem er sögumenn í eðli sínu, en það má finna út um allan heim. Þú heyrir portúgölsku, arabísku, kínversku og fullt af fleiri tungumálum dags daglega í þessu starfi, nemendur tala mikið saman á göngunum á ýmsum tungumálum og það finnst mér mjög jákvætt. Það endurspeglar að mínu mati kvikmyndagerðarheiminn; hann er mun alþjóðlegri en ég held að fólk geri sér almennt grein fyrir.“ Og það er ekki ofsögum sagt að fjöldi nemenda alls staðar að stundar nám við skólann ár hvert. „Hollywood er svo fjölþjóðlegur staður, þar má finna fjöldann allan af fólki alls staðar að úr heiminum og New York Film Academy endurspeglar það. Þetta fólk hittist svo á ýmsum kvikmyndahátíðum, fólk sem á það allt sameiginlegt að elska bíó.“

Með mjög svartan húmor

Um 400 kennarar starfa við skólann og árlega eru rúmlega …
Um 400 kennarar starfa við skólann og árlega eru rúmlega 7.000 nemendur teknir inn.

Og hvað skyldi svo vera fram undan hjá þessari miklu athafnakonu? „Ég veit það eiginlega ekki. Ég tek bara einn dag í einu. Ég er svo heppin að hafa alltaf getað unnið við skapandi störf og tek þá reynslu með mér í þetta nýja starf, það hefur reynst mjög skemmtilegt og krefjandi. Ég vinn með frábæru fólki, svo eins og staðan er núna ætla ég að einbeita mér að þessu starfi og gera það vel,“ segir Ragnhildur. Hún tekur enn að sér framleiðsluverkefni hér og hvar, nú síðast í vor. Ragnhildur hefur þrátt fyrir það ekki alveg lagt eigin sköpunarkraft á hilluna.

„Ég er alltaf að skrifa svona á hliðarlínunni. Ég féll fyrir handritaskrifum þegar ég var í náminu þannig að ég skrifa dálítið svona fyrir mig sjálfa. Mér líkar best að skrifa í svörtum húmor, slíkt á vel við mig og blandast dálítið inn í allt sem ég skrifa.“ Ragnhildur heldur því þó ekki fram að hún sé atvinnuhöfundur. „Ég hef framleitt sumt af því sem ég hef skrifað en ég lít ekki á mig sem atvinnuhöfund. Þetta er meira ástríða á hliðarlínunni, ég hef ekki verið að eltast mikið við þetta en það er eitthvað sem heldur mér í þessu samt sem áður. Ég er innan um svo mikið af skapandi fólki sem er að fást við svo margt og fjölbreytt. Það finnst mér skemmtilegt umhverfi,“ segir Ragnhildur að lokum.

Fremstur á sínu sviði

Höfuðstöðvar New York Film Academy eru, eins og nafnið gefur til kynna, í New York. Að auki eru þrjú eins konar útibú skólans á þremur stöðum í Bandaríkjunum og svo um heim allan. Skólann stofnaði framleiðandinn Jerry Sherlock og hann hefur verið starfræktur í ein 25 ár. Á þeim tíma hefur hann byggt upp gott orðspor sem einn af fremstu og virtustu kvikmyndaskólum heims. Um 400 kennarar starfa við skólann og árlega eru rúmlega 7.000 nemendur teknir inn. Nemendur vinna eigið efni og læra á því að vinna eins og gert er í kvikmyndabransanum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »