Leitinni að Begades hætt í bili

Á annað hundrað björgunarsveitarmenn tóku þátt í leitinni kvöldið sem …
Á annað hundrað björgunarsveitarmenn tóku þátt í leitinni kvöldið sem hann féll í fossinn. Fækkað hefur smám saman í björgunarsveitarliðinu síðan, en búið er að leita 30 kílómetra niður ána frá fossinum án árangurs. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Leitinni að Georgíumanninum Nika Begades, sem er talinn af eftir að hafa fallið í Gullfoss á miðvikudag, er lokið í bili. Búið er að kemba um 30 kílómetra í og meðfram Hvítá frá fossinum en leitin hefur ekki borið árangur. 

Viðar Arason, hjá svæðisstjórn björgunarsveita á Suðurlandi, staðfestir þetta í samtali við mbl.is. Hann segir að björgunarfélagið Eyvindur á Flúðum muni vakta ána reglulega áfram auk þess sem hann biðlar til veiðimanna, sumarbústaðaeigenda og bænda á svæðinu að hafa augun hjá sér.

Uppfært 13:25

Í fyrstu útgáfu fréttarinnar sagði að leit hefði verið hætt. Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, hafði samband við mbl.is vegna fréttarinnar og áréttaði að leit væri ekki endanlega hætt, heldur í bili. Vænta megi ákvörðunar um næstu skref á næstu dögum.

mbl.is