Gjaldheimtan „tímabundin aðgerð“

Gjaldheimta hófst á bílastæðunum við Seljalandsfoss um helgina.
Gjaldheimta hófst á bílastæðunum við Seljalandsfoss um helgina.

„Í raun og veru lítum við á þetta sem tímabundna aðgerð og auðvitað helgast framhaldið svolítið af því hvað ríkisvaldið gerir í þessum efnum og við höfum náttúrlega lengi verið að bíða eftir því,“ segir Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings, í samtali við mbl.is.

Gjaldtaka hófst á bílastæðunum við Seljalandsfoss um helgina en að sögn Ísólfs liggur ekki nákvæmlega fyrir að svo stöddu hvernig fénu sem heimt verður með gjaldtökunni verður ráðstafað, að öðru leyti en því að því verði varið til uppbyggingar á svæðinu.

„Meðan að ástandið er eins og það er þá höfum við gripið til þessara aðgerða, meðal annars vegna þess að það er svo nauðsynlegt fyrir okkur að byggja upp innviðina þarna við fossinn,“ segir Ísólfur Gylfi.

Ákvörðun um ráðstöfun liggur ekki fyrir

Spurður hvernig standi til að ráðstafa fénu sem innheimt verður með gjaldtökunni segir Ísólfur Gylfi enga nákvæma áætlun um það liggja fyrir enn þá. Sveitarfélagið hafi hingað til borið nánast allan kostnað við fossinn en nú verði alfarið unnið í samstarfi við landeigendafélagið.

Nefnir hann meðal annars göngustíga, bílastæði og salernisaðstöðu sem úr þurfi að bæta en forgangsröðun verkefna verði ákvörðuð í samráði við landeigendur sem viti betur hvar þörfin er brýnust. Í þessari viku stendur til að hefja viðgerðir á göngustígum.

„Við höfum verið reyndar að bæta örlítið salernisaðstöðuna núna hjá okkur að undanförnu en í raun er svo margt sem þarf að gera þarna upp á uppbygginguna,“ segir Ísólfur Gylfi. „Menn eru alveg samstíga um það að til þess að geta lagfært þarna ákveðna hluti þá verðum við með einhverju móti að afla fjár til þess.“

Leggja bílnum og fara í Þórsmörk

Sólarhringsgjald fyrir bílastæði við fossinn er 700 krónur fyrir bíl en 3.000 krónur fyrir rútu. Að sögn Ísólfs var gjaldið ákvarðað í samræmi við bílastæðagjöld á öðrum vinsælum ferðamannastöðum, til að mynda á Þingvöllum. Gjaldið er greitt í stöðumælum á svæðinu og að sögn Ísólfs munu landeigendur sem annast annan rekstur á svæðinu einnig hafa eftirlit með mælunum.

Að sögn Ísólfs hefur verið sótt um styrki í framkvæmdasjóð ferðamála til uppbyggingar innviða á svæðinu við fossinn en ekki hafi fengist styrkir til framkvæmda við bílastæðin sem þarfnist úrbóta. Þá eigi fólk sem leggur leið sína inn í Þórsmörk það til að leggja bílum sínum við fossinn og geyma þar jafnvel svo dögum skipti og er gjaldið sé ekki síður hugsað til að sporna við því að sögn Ísólfs.

Ekki náðist í full­trúa land­eig­enda­fé­lags­ins við vinnslu frétt­ar­inn­ar.

mbl.is

Bloggað um fréttina