Jökulsárlón nú hluti Vatnajökulsþjóðgarðs

Björt Ólafsdóttir undirritaði í dag reglugerð sem felur í sér …
Björt Ólafsdóttir undirritaði í dag reglugerð sem felur í sér friðlýsingu Jökulsárlóns. Lónið verður með reglugerðinni hluti Vatnajökulsþjóðgarðs. mbl.is/Rax

Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði nú klukkan 13 í dag friðlýsingu Jökulsárlóns og umfangsmikilla svæða sem liggja að lóninu. Með friðlýsingunni var svæðið um leið fellt inn í Vatnajökulsþjóðgarð.

Nær þjóðgarðurinn nú frá hæsta tindi landsins niður að fjöru en breytingin felur í sér að hluti þjóðvegar 1 liggur nú í gegnum þjóðgarð í fyrsta sinn að því er segir í tilkynningu frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Friðlýsingin tekur til jarðarinnar Fells og nærliggjandi þjóðlenda en jörðin nær yfir Jökulsárlón að hluta og á landamerki að þjóðlendum vestan við lónið og norðaustur af Felli. Með friðlýsingunni hafa fyrrnefnd svæði verið felld inn í Vatnajökulsþjóðgarð, alls um 189 ferkílómetrar, og er Vatnajökulsþjóðgarður þar með orðinn 14.141 ferkílómetri að flatarmáli.

Jörðin nær yfir Jökulsárlón að hluta og á landamerki að …
Jörðin nær yfir Jökulsárlón að hluta og á landamerki að þjóðlendum vestan við lónið og norðaustur af Felli. Alls er um að ræða 189 ferkílómetra. Kort/umhverfis- og auðlindaráðuneyti

„Sérstaða landsvæðisins er mjög mikil. Það er mótað af framgangi og hopi jökla og einkennist af sérstæðum jökulöldum. Ein helsta náttúruperla svæðisins er Jökulsárlón sem er stærsta og þekktasta jaðarlón á landinu. Með friðlýsingunni nær Vatnajökulsþjóðgarður nú einnig yfir stóran hluta Breiðamerkursands og meginhluta Fjallsárlóns. Á öllu þessu svæði er rekin umfangsmikil ferðaþjónusta.

Með því að fella svæðið inn í Vatnajökulsþjóðgarð er verndun og stjórnun þess betur samræmd, m.a. hvað varðar umgengni og öryggi ferðamanna. Svæðið er hluti rekstrareiningar suðursvæðis þjóðgarðsins og svæðisráðs sem er undir formennsku sveitarfélagsins Hornafjarðar,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Jökulsárlón tilheyrir nú Vatnajökulsþjóðgarði.
Jökulsárlón tilheyrir nú Vatnajökulsþjóðgarði. mbl.is/Rax

Fram undan hjá Vatnajökulsþjóðgarði eru því verkefni sem snúa að uppbyggingu innviða og landvörslu á svæðinu en friðlýsingin er talin styrkja tilnefningu Vatnajökulsþjóðgarðs sem náttúruminja á heimsminjaskrá UNESCO sem unnið hefur verið að um nokkurt skeið.

Einkamáli enn ólokið

Gengið var frá kaupum ríkisins á Felli í Suðursveit í janúar á þessu ári. Fögru­sal­ir ehf. keyptu jörðina Fell fyrr um veturinn en ríkið nýtti þá for­kaups­rétt sinn. Lög­um sam­kvæmt hafði ríkið 60 daga til að ganga inn í kauptil­boðið en til­kynn­ing rík­is­ins barst eft­ir 66 dag­a. 

Í kjölfarið kærðu Fögru­sal­ir ehf. ríkið á grund­velli nauðung­ar­sölu­laga en töldu héraðsdóm­ur og Hæstirétt­ur Íslands að þau ættu ekki við. Var þá höfðað al­mennt einka­mál til að fá úr því skorið hvort for­kaups­rétt­ur­inn hafi verið niður­fall­inn eða ekki og er það mál enn í gangi að sögn lögmanns Fögrusala.

Í samtali við mbl.is í gær sagði Hró­bjart­ur Jónatansson, lögmaður Fögrusala, að um­hverf­is­ráðherra hafi mátt vita af dóms­mál­inu enda sé fjár­málaráðherra í fyr­ir­svari fyr­ir málið fyr­ir hönd rík­is­ins. Hefti friðlýs­ing­in not á eign­inni og telj­ist for­kaups­rétt­ur rík­is­ins ekki gild­ur, eigi ríkið von á bóta­máli. 

„Að Björt Ólafs­dótt­ir sé að lýsa yfir að það sé búið að leysa úr þess­um ágrein­ingi er mjög ein­kenni­legt vegna þess að fjár­málaráðherra er í fyr­ir­svari fyr­ir málið. Tala þau ekki sam­an í rík­is­stjórn­inni?“ sagði Hróbjartur.

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra kveðst í samtali við mbl.is lítið geta tjáð sig um málið. Hann þekki ekki hvar málið sé statt og það hafi ekki komið inn á hans borð að undanförnu. Kveðst hann þó efast um að friðlýsingin muni hafa áhrif á eða raska því einkamálinu sem enn er í gangi.

„Eignirnar heyra undir fjármálaráðuneytið en ég hef ekkert fylgst með því síðan, þeim málarekstri. Ég bara vissi að það væri í gangi,“ segir Benedikt.

Vatnajökulsþjóðgarður er frá og með deginum í dag orðinn 14.141 …
Vatnajökulsþjóðgarður er frá og með deginum í dag orðinn 14.141 ferkílómetri að flatarmáli. Kort/Umhverfis- og auðlindaráðuneyti
mbl.is