Miklar umferðatafir á Suðurlandsvegi

Mikið hafi verið kvartað undan þungri umferð á Suðurlandsvegi milli …
Mikið hafi verið kvartað undan þungri umferð á Suðurlandsvegi milli Hveragerðis og Selfoss. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

„Þetta getur ekki annað en farið í vitleysu,“ segir Gísli Wiium, varðstjóri hjá lögreglunni á Selfossi, um miklar umferðatafir sem nú eru á Suðurlandsvegi milli Hveragerðis og Selfoss. Að hans sögn hefur mikið verið kvartað undan þungri umferð og ráðleggur lögregla vegfarendum að fara frekar Þrengslaveg og Eyrarbakkaveg til að komast hjá óþægindum.

Að sögn varðstjóra er verið að malbika um kílómetra langan vegarkafla á veginum undir Ingólfsfjalli og hafa miklar umferðatafir myndast vegna framkvæmdanna. Umferðin hafi fljótt þyngst verulega og nú sé ökumönnum hleypt í skömmtum þar sem aðeins önnur akrein vegarins er notuð. 

„Það er svo mikil umferð þarna að það getur ekki farið í annað en vitleysu, það er svo þung umferð þarna að það þarf ekki nema smá árekstur þá er allt orðið stíflað um leið,“ segir Gísli.

Að sögn Gísla hefur mikið verið kvartað yfir umferðateppunni. Á vettvang séu nú komnir lögreglumenn til að skoða hvernig Vegagerðin stjórni umferðinni á svæðinu en henni er ekki ljósastýrt. 

Lögreglan bendir vegfarendum á Þrengslaveg og Eyrarbakkaveg til að komast hjá óþægindum. Sú leið, sem er 10 kílómetrum lengri að Selfossi en hefðbundna leiðin um Ölfus, taki styttri tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert