Með fullan munn af sjó

Það tók aðeins þrjár sekúndur fyrir skútuna að fara heil …
Það tók aðeins þrjár sekúndur fyrir skútuna að fara heil hring og lýsti einn skipverjanna því að honum gafst ekki tími til þess að draga andann áður en hún rétti sig aftur við. mbl.is/RAX

Bandarísku skipverjarnir þrír sem lentu í háska á skútu suðvestur af Íslandi í síðustu viku sögðu við lögreglu að það hefði aðeins tekið um þrjár sekúndur fyrir skútuna að fara heilhring. Eru þeir gríðarlega þakklátir skipstjóranum um borð í Árna Friðrikssyni fyrir björgunarstörfin.

Guðrún Ýr Skúladóttir rannsóknarlögreglumaður segir í samtali við mbl.is að lögreglan á Suðurnesjum hafi rætt við mennina á föstudaginn og tekið af þeim skýrslu. „Þetta var stórkostleg lýsing.“

Með munninn fullan af sjó

Eins og áður hefur komið fram brotnaði mastur skútunnar og henni hvolfdi áður en hún komst aftur á réttan kjöl. Guðrún segir að þegar atvikið átti sér stað, aðfaranótt miðvikudags, hafi tveir þeirra verið staddir undir þiljum en sá þriðji stóð vaktina.

Lýsti einn þeirra því hvernig hann vaknaði með fullan munn af sjó og var kominn upp í loftið á káetunni. Þá hafi þetta gerst svo hratt að hann hafi ekki einu sinni náð að draga andann áður en skútan rétti sig aftur við.

Eftir að skútan hafði rétt sig við náði vatnið þeim upp að hnjám og þeir reyndu eftir fremsta megni að pumpa vatninu úr skútunni og losa sig við alla lausa muni til þess að létta á skútunni eins og þeir gátu. 

Sjö klukkustundir liðu milli þess sem mennirnir sendu út neyðarsendi …
Sjö klukkustundir liðu milli þess sem mennirnir sendu út neyðarsendi og þangað til rannsóknarskipið Árni Friðriksson kom þeim til bjargar. mbl

Sjö klukkustunda bið eftir björgun 

Guðrún segir að þeim hafi tekist að senda út neyðarboð um tveimur klukkutímum eftir að skútunni hvolfdi en þá þurftu þeir að bíða í fimm klukkustundir til viðbótar eftir því að rannsóknarskipið Árni Friðriksson kæmi þeim til bjargar.

Eru þeir gríðarlega þakklátir skipverjunum um borð í Árna Friðrikssyni og segja að skipstjórinn hafi gert kraftaverk. Hann eigi skilið orðu fyrir sín verk. Vont veður gerði það að verkum að erfitt var að komast að skútunni. Þá þurftu þeir að blása upp björgunarbát og róa út fyrir til þess að hægt væri að hífa þá upp um borð í rannsóknarskipið.

Skipverjarnir eru gríðarlega þakklátir skipstjóranum og starfsmönnum um borð í …
Skipverjarnir eru gríðarlega þakklátir skipstjóranum og starfsmönnum um borð í Árna Friðrikssyni fyrir björgunarstörfin. Hann eigi skilið medalíu fyrir það sem hann gerði. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Þakklátir fyrir að vera á lífi 

Guðrún segir að í raun sé því að þakka að mastrið brotnaði að skútan fór heilhring í stað þess að enda á hvolfi. Hélst skútan allan tímann á floti, en verr hefði farið ef þeir hefðu orðið undir. Hún segir óhætt að segja að mennirnir hafi klökknað við frásögnina og eru þeir fegnir því að vera á lífi.

Málið er nú til rannsóknar hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa en ekki er komið á hreint hver afdrif skútunnar verða. Mennirnir eru hins vegar komnir til Reykjavíkur og njóta aðstoðar bandaríska sendiráðsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert