Tók blindan lunda í varanlegt fóstur

Fallegur vinskapur hefur myndast á milli Ásrúnar og Munda.
Fallegur vinskapur hefur myndast á milli Ásrúnar og Munda. Mynd/Ásrún Magnúsdóttir

Þegar vinkona Ásrúnar Magnúsdóttur hringdi í hana í vinnuna einn mánudagsmorguninn í apríl og sagðist hafa fundið slasaðan fugl, sem hún taldi vera lunda, óraði Ásrúnu ekki fyrir ævintýrinu sem framundan var. Vinkonan vissi að hún væri að hringja í rétta manneskju, enda Ásrún mikill dýravinur sem má ekkert aumt sjá. Áður en hún vissi af var hún búin að taka að sér blindan lunda, sem bættist í hóp fjögurra annarra dýra á heimilinu. Upphaflega átti lundinn aðeins að vera á heimilinu þangað til hann næði heilsu, en rúmum þremur mánuðum síðar er hann enn á sama stað, þar sem hann lifir í sátt og samlyndi við annað heimilisfólk.

„Þetta var mjög venjulegur mánudagsmorgun, ég fór í vinnuna eins venjulega en fékk fljótlega skilaboð frá vinkonu minni sem var skiptinemi á Íslandi. Hún var í öngum sínum því hún hafði fundið slasaðan fugl. Hún hélt þetta væri lundi og vissi ekki hvað hún átti að gera við hann. Ég trúði ekki alveg að það væri lundi í Reykjavík og hugsaði með mér að útlendingar hlytu að sjá lunda alls staðar. Bjóst frekar við því að þetta væri hettumávur. Þegar hún sendi mér svo mynd þá missti ég andlitið. Þetta var í alvöru lundi.“

Með heilahristing og augnsýkingu

Ásrún var ekki lengi að svara kalli vinkonu sinnar. Hún fékk að skreppa strax úr vinnunni, greip með sér handklæði og mætti á staðinn. „Hann lá nánast alveg hreyfingarlaus hjá henni þegar ég kom, en hausinn á honum tikkaði reglulega mjög undarlega til vinstri, eins og hann væri að fylgjast með umferðinni eða lesa bók. Þetta er hreyfing sem hefur fylgt honum þó hann sé allur orðinn mun hressari en hann var.“

Mundi teygir úr sér á góðviðrisdegi.
Mundi teygir úr sér á góðviðrisdegi. Mynd/Ásrún Magnúsdóttir

Ásrún hefur ekki fengið neinar skýringar á þessum kæk Munda en líklegt þykir að um sé að ræða varanlegar afleiðingar mikils höfuðhöggs. „Þetta hefur verið mjög mikið högg sem hann fékk, allavega miðað við það hvernig goggurinn á honum er farinn. Það hafði kvarnast upp úr honum og sargast alveg framan af honum. Við vitum í raun ekki hvað kom fyrir hann en möguleiki er á því að hann hafi hreinlega orðið fyrir bíl.“

Ásrún fór með lundann til dýralæknis þar sem vel var tekið á móti þeim. Hann var skoðaður hátt og lágt og var það mat dýralæknisins að ekkert amaði að honum fyrir utan að hann hefði greinilega fengið mikið höfuðhögg og var með sýkingu í augum. „Hann er væntanlega úr Faxaflóanum, annað hvort Lundey eða Akurey, og gæti hafa verið að koma til baka frá vetursetu annars staðar þegar hann villtist. Við giskuðum á að hann hefði verið kominn með sýkinguna þá, álpast í vitlaust átt og inn í borgina.“

Mundi lundi fimmta dýrið á heimilinu

Eftir að hafa látið dýralækni skoða lundann ákvað Ásrún að taka hann með sér heim og hlúa að honum þar. Enda væri það ekki í fyrsta skipti sem hún tæki að sér dýr í neyð. Á heimili hennar í Mosfellsbæ eru einmitt tveir hundar og tveir kettir, sem hún bjargaði af götunni. „Mig langaði að láta á það reyna hvort ég gæti komið honum til heilsu, en það var alltaf stefnan að sleppa honum þegar hann væri orðinn góður.“

Ásrún spáði lítið í það hvort hún hefði aðstöðu til að hafa lunda á heimilinu, eða hvað hún þyrfti til að láta honum líða sem best. Hún vildi einfaldlega bjarga honum frá dauða. Hitt var seinni tíma vandamál sem henni tókst að sjálfsögðu að leysa.

Tekur sig vel út meö fjólunum.
Tekur sig vel út meö fjólunum. Mynd/Ásrún Magnúsdóttir

„Ég er svolítið klikkuð dýrakona þannig ég átti ýmislegt og ég bjó mér bara til aðstöðu. Ég gat nýtt skilrúm sem ég hef notað fyrir hundana mína til að stúka hann af. Þá átti ég kattarbúr sem hann gat verið í. Ég bjó strax til tímabundna aðstöðu fyrir hann, enda átti þetta bara að vera tímabundið.“

Lundinn fékk nafnið Mundi, en Ásrún bjóst allt eins við að hann hefði þetta ekki af og myndi drepast á fyrsta sólarhringnum. „Ég bjóst alveg eins við að koma að honum dauðum daginn eftir, en hann var ennþá lifandi og fór að taka við fæði. Hann var reyndar voða vesældarlegur greyið og gerði ekkert nema sofa fyrstu dagana.“

Aðalfæða lunda er loðna, en Ásrúnu hefur ekki gengið vel að fá hana á höfuðborgarsvæðinu. Mundi hefur því aðallega verið að fá rækjur að borða og skötusel á tyllidögum. Ásrún komst hins vegar í smá loðnu í Vestmannaeyjum nýlega og hefur Mundi því verið að gæða sér á henni síðustu daga og líkað vel. Ásrún væri mjög þakklát ef einhver gæti bent henni á hvar hún gæti fengið loðnu í nágrenni höfuðborgarsvæðisins.

Myndi aldrei lifa af úti í náttúrunni

Þrátt fyrir að Mundi braggaðist mjög vel og virtist ætla að ná sér af heilahristingnum að mestu leyti, þá fannst Ásrúnu hann eitthvað skrýtinn. Hann hreyfði sig lítið og sýndi engin viðbrögð við hreyfingu annarra í kringum sig. „Það var ekki fyrr en maður straukst alveg upp við að honum brá og hann kipptist til. Þegar hann var farinn að ganga þá gekk hann á og fór fram af hlutum ef maður gætti ekki að honum. Það kom í ljós að þessi sýking hafði væntanlega valdið einhverjum skaða á sjóninni.“

Munda finnst gott að sitja á öxlinni á Ásrúnu eins …
Munda finnst gott að sitja á öxlinni á Ásrúnu eins og páfagaukur. Mynd/Ásrún Magnúsdóttir

Ásrún segir erfitt að segja til um það hvort Mundi er alveg blindur eða hvort hann sjái einhverjar skuggamyndir. „Hann virðist ekki sjá neitt. Hann forðast ekki neitt og virðist stundum einn í sínum heimi. Hann heyrir hins vegar mjög vel og bregst við röddum. Hann gerir meira að segja mannamun. Hann þekkir mig þegar ég kem og byrjar strax að vagga um. Þegar hann heyrir í mér þá veit hann að matur er á leiðinni. Hann virðist hafa matarást á mér,“ segir hún kímin.

Þegar Ásrún áttaði sig á því að Mundi væri blindur varð henni það ljóst að hann gæti aldrei spjarað sig upp á eigin spýtur úti í náttúrunni. „Ég hef talað við dýrlækna og fuglafræðinga. Sent þeim myndbönd af honum og lýst hvernig hann hagar sér og það eru allir sammála um að hann myndi aldrei hafa það af einn síns liðs.“

Situr á öxlinni eins og páfagaukur 

Mundi lundi hefur að mestu leyti búið inni í þvottahúsi hjá Ásrúnu í Mosfellsbænum, en mágur hennar smíðaði nýlega handa honum útibúr þar sem hann fær að vera á góðvirðisdögum. Þá stendur til að gera fyrir hann enn betri aðstöðu innandyra, því Mundi er ekkert á förum. „Það gengur voða vel og hann virðist hafa það ágætt,“ segir Ásrún. Þau hafa myndað með sér afar sérstakan, en góðan vinskap. „Hann er vissulega blindur en dýr sem hefði það slæmt myndi reyna að bíta og slá og koma sér í burtu.“

Búrið sem mágur Ásrúnar smíðaði handa Munda.
Búrið sem mágur Ásrúnar smíðaði handa Munda. Mynd/Ásrún Magnúsdóttir

Hún telur að Munda líði best þegar hann er stendur uppi á einhverju. Þegar hún byrjar að tala við hann á hann það til að bíta aðeins í fötin hennar en hoppar svo uppi á öxlina á henni þar sem hann situr eins og páfagaukur og sperrir sig.

„Stundum stend ég mig að því að skamma hann fyrir að bíta. Það þarf að leggja honum nýjar lífsreglur nú þegar hann er allt í einu orðinn heimilisdýr. Hann er samt mjög meðfærilegur og voða skemmtileg týpa.“

Lundi á barmi heimsfrægðar

Ásrún var dugleg að segja frá Munda lunda á Facebook-síðunni sinni enda voru vinir hennar mjög forvitnir um nýjasta fjölskyldumeðliminn. Áhuginn var svo mikill og fólk vildi fá að deila myndum og myndböndum af Munda, að Ásrún ákvað að útbúa sérstaka Facebook-síðu fyrir hann til að auðvelda áhugasömum að fylgjast með.

Mundi skoðar heiminn.
Mundi skoðar heiminn. Mynd/Ásrún Magnúsdóttir

Ásrún setur efni inn á síðuna mjög reglulega, fréttir, myndir og myndbönd af Munda. Það hefur komið henni á óvart hvað fólk fylgist mikið með ævintýrum Munda og hann á í raun orðið fastan aðdáendahóp. Hann hefur líka vakið athygli út fyrir landsteinana, en á dögunum hafði vefsíðan dodo.com, sem er haldið úti af áhugafólki um dýravelferð, samband við Ásrúnu og vildu fá viðtal um Munda. Hún sló að sjálfsögðu til og viðbrögðin við viðtalinu hafa farið fram úr hennar björtustu vonum. Fólk hefur kallað hana dýrling og hetju fyrir að fóstra Munda með þessum hætti. „Sálartetrið mitt er mjög upplífgað yfir þessum viðbrögðum. Svo er líka fyndið að sjá hvað margir eru afbrýðisamir og vildu að þeir hefðu fundið lunda.“

Heimsóknum fjölgaði með komu Munda

Ásrún segir lunda ekki fyrirferðarmikil dýr. Mundi er um 25 sentimetrar á hæð og frekar hljóðlátur. Það er því ekkert ónæði af honum. „Það heyrist eiginlega ekkert í honum, nema stundum þegar ég tek hann óvænt upp, án þess að hann hafi gert sér grein fyrir því að ég sé á staðnum. Þá gefur hann frá sér smá ónægju rophljóð.“

Stórglæsilegur fugl.
Stórglæsilegur fugl. Mynd/Ásrún Magnúsdóttir

Ekki er vitað hvað Mundi er gamall, en lundar geta orðið ansi langlífir. Ásrún segir að þeir verði að meðaltali 25 ára, en geti orðið allt að 40 ára. Þá er óljóst af hvoru kyninu Mundi er. „Það getur verið erfitt að segja til um það, enda eru kynin mjög lík. Það er helst að það sé hægt að sjá það á gogginum, en hann er með brotinn gogg þannig það er enn erfiðara að sjá það.“

Ásrún segir vini og ættingja lítið hafa kippt sér upp við það þegar hún ákvað að taka laskaðan lunda inn á heimilið, enda er fólkið í kringum hana ýmsu vant. „Ég er svo mikil dýrakerling. Fyrir tveimur árum fann ég þrjá kettlinga í Öskjuhlíð og tók þá með mér heim. Svo á ég tvo hunda sem var báðum bjargað. Þetta er því algjör dýragarður hjá mér,“ segir hún hlæjandi. Ef eitthvað er hefur Mundi lundi bætt tengsl hennar við vini og ættingja. „Ég held ég hafi aldrei fengið jafnmargar heimsóknir frá vinum og vandamönnum eftir að hann kom inn á heimilið.“

Hún viðurkennir að það sé mikil vinna og binding að vera með dýr, hvað þá fleiri en eitt. „Ég hugsa samt alltaf að sé hvort eð er komin með dýr inn á heimilið og því geti ég alveg bætt við einu enn.“

Hann kann vel við sig í vatni.
Hann kann vel við sig í vatni. Mynd/Ásrún Magnúsdóttir

Hér má sjá umfjöllun dodo.is um Ásrúnu og Munda:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert