Bjarni tjáir sig um uppreist æru

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra kveðst ekki hafa gegnt embætti innanríkisráðherra þegar tillaga um uppreist æru var til lykta leidd í ráðuneytinu á síðasta ári. Ekki heldur hafi hann gegnt því embætti þegar málið fór fyrir ríkisstjórn eða var lagt fyrir forseta Íslands til staðfestingar en þetta kemur fram í færslu sem Bjarni birti á Facebook-síðu sinni í kvöld.

„Það sætir því furðu að kallað sé eftir því að ég svari fyrir þá ákvörðun. Enn undarlegra er að sjá skrif um að ég forðist umræðu um málið,“ skrifar Bjarni og vísar þar til fréttaumfjöllunar um málið í dag þar sem því hafi verið haldið fram að Bjarni hafi skrifað upp á tillögu um uppreist æru og neitað að svara fyrir málið.

Vinnan hafi farið af stað áður en umfjöllun hófst

„Hugtakið uppreist æru kemur sérstaklega spánskt fyrir sjónir þegar um er að ræða brot, sem er erfitt að fyrirgefa. Á undanförnum áratugum hefur undantekningarlaust verið fallist á beiðni um uppreist æru séu tiltekin lögformleg skilyrði uppfyllt. Ég tel að breytt viðhorf, sem m.a. koma fram í hertum viðurlögum við kynferðisbrotum, kalli á að við tökum nú þessa áralöngu framkvæmd til endurskoðunar,“ skrifar Bjarni ennfremur en færsluna má sjá í heild sinni hér að neðan. 

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra tekur undir orð Bjarna í færslu á Facebook og bendir hún á að vinna við breytingar á ákvæðum laga um uppreist æru standi yfir í ráðuneytinu. Sú vinna hafi farið af stað nokkru áður en umræða hófst um málið í fjölmiðlum líkt og Bjarni hafi vakið athygli á í sinni færslu. Rætt var einnig við Sigríði um málið í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert