Grænu skýlin á útleið

Við Miklubraut
Við Miklubraut mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Fyrirtækið AFA JCDecaux, sem á og rekur strætóskýlin í Reykjavík, hefur sagt upp samningi sínum við Reykjavíkurborg. Strætóskýlin grænu munu því að óbreyttu heyra sögunni til er samningurinn rennur út í lok júlí á næsta ári.

Samningurinn, sem er frá árinu 1998, kveður á um að franska fyrirtækið sjái um uppsetningu og viðhald strætóskýla, upplýsingaskilta og nokkurra almenningsklósetta í borginni, borgaryfirvöldum að kostnaðarlausu. Þess í stað selur fyrirtækið auglýsingar í skýlin og hefur af því tekjur.

Einar Hermannsson, framkvæmdastjóri AFA JCDecaux á Íslandi, segir það hafa legið fyrir að samningurinn væri til tuttugu ára eða fram til ársins 2018. Nú stefni Reykjavíkurborg að því að bjóða út reksturinn á evrópska efnahagsvæðinu. Fyrirtækið hafi því sagt samningnum upp svo hægt verði að hefjast handa við að fjarlægja strætóskýlin næsta vor, hreppi fyrirtækið ekki hnossið í útboðinu.

Einar segir vilja hjá félaginu til að halda áfram rekstri skýlanna og stefnt sé að því að taka þátt í útboðinu svo fremi sem útboðsskilmálar séu hagstæðir. „Ef gerð verður krafa um endurnýjun skýlanna munum við ekki taka þátt í því,“ segir Einar.

Skýlin grænu, sem eru eign AFA, yrðu þá send úr landi, en fyrirtækið sér um upplýsingaskilti og biðskýli fyrir almenningssamgöngur í 1.200 borgum víðsvegar um heim, auk þess sem skýlin er að finna í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði.

Aðspurður segist Einar ekki vita hvort borgin vilji fá greitt með strætóskýlunum í útboðinu sem fram fer seinna á árinu en það tíðkist hvergi í þeim 1.200 borgum sem fyrirtækið þjónustar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert