Hvað er að gerast um verslunarmannahelgina?

Evrópumeistaramótið í mýrarbolta verður að þessu sinni haldið í Bolungarvík.
Evrópumeistaramótið í mýrarbolta verður að þessu sinni haldið í Bolungarvík. Ljósmynd/Eva Björk Ægisdóttir

Hátíðahöld verða í hávegum höfð víða um land yfir verslunarmannahelgina. Veðurspá lofar góðu og mbl.is tók saman nokkrar af þeim hátíðum sem í boði eru.

Þjóðhátíð í Eyjum

Fyrsta Þjóðhátíðin var haldin árið 1874 og þá mættu um 400 manns. Í ár er búist við sama fjölda og í fyrra eða um 15.000 manns. Ásamt brennunni, flugeldunum og brekkusöngnum er boðið upp á kassabílarall og söngvakeppni barna. Meðal þeirra sem koma fram eru: Hildur, Emmsjé Gauti, Friðrik Dór, Albatross, Skítamórall og Ragga Gísla.  

Frá Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.
Frá Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Mýrarboltinn

Evrópumeistaramótið í mýrarbolta verður haldið í 14. sinn og að þessu sinni í Bolungarvík. Skráning liða er enn í fullum gangi og mótshaldarar benda á að ef einstaklingar hafi áhuga á taka þátt, en ná ekki í heilt lið er hægt að hafa samband og bæta þeim í svokölluð „skraplið.“ Emmsjé Gauti, Páll Óskar og SSSÓL eru meðal þeirra sem sjá um að skemmta mótsgestum.

Ein með öllu

Ein með öllu og íslensku sumarleikarnir verða á Akureyri. Þar er boðið upp á tónleika, íþróttaviðburði og tívolí. Hátíðardagskrá er föstudags og laugardagskvöld á Ráðhústorgi og á sunnudagskvöld eru Sparitónleikarnir á Samkomuhúsflötinni. Úlfur Úlfur, Aron Can, Aron Hannes og Gréta Salóme eru meðal þeirra sem koma fram.

Frá Innipúkanum 2016.
Frá Innipúkanum 2016. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Innipúkinn

Tónlistarhátíðin Innipúkinn fer fram í miðborg Reykjavíkur í 16. sinn.  Aðaltónleikadagskrá fer fram innandyra en einnig verður götuhátíðarstemming yfir daginn í Naustinu. Hægt er að kaupa miða á einstök kvöld eða hátíðina alla. Meðal þeirra sem koma fram eru: Amabadama, Daði Freyr, Jón Jónsson, XXX Rottweiler og Sigga Beinteins.

Neistaflug

Neistaflug á Neskaupsstað verður á sínum stað. Meðal þess sem boðið verður upp á er Frisbeegolfmót, bjórfræðsla, sápubolti og dorgveiðikeppni. Áttan, Todmobile, Stuðlabandið og Dimma eru á meðal þeirra tónlistaratriða sem koma fram á hátíðinni.

Kvöldvaka á Neistaflugi 2016.
Kvöldvaka á Neistaflugi 2016. Ljósmynd/Hlynur Sveinsson

Flúðir um versló

Hátíðin Flúðir um versló er haldin í þriðja sinn í ár. Í fyrra mættu um 12.000 manns og í ár er von á svipuðum fjölda. Á fimmtudagskvöld verða stórtónleikar með Todmobile og yfir helgina verður einnig dagskrá fyrir börnin. Á meðal þeirra sem skemmta eru: Pétur Jóhann, Eyþór Ingi, Á móti sól og Made in sveitin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert