Æsingsóráðsheilkenni hafi dregið Arnar til dauða

Rannsókn á manndrápsmáli í Mosfellsdal í sumar er lokið og …
Rannsókn á manndrápsmáli í Mosfellsdal í sumar er lokið og málið verið sent héraðssaksóknara. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Talið er að æsingsóráðsheilkenni hafi verið það sem dró Arnar Jónsson Aspar til dauða í kjölfar árásar sem hann varð fyrir við heimili sitt í Mosfellsdal fyrr í sumar. Þetta kemur fram í krufningarskýrslu réttarmeinafræðings sem fréttastofa Stöðvar 2 hefur undir höndum og greint var frá í kvöldfréttum.

Kveðst fréttastofa hafa heimildir fyrir því að orsakir andláts Arnars séu tvær en aðeins önnur þeirra hefur verið birt opinberlega á vef Hæstaréttar. Þar segir að rekja megi andlátið til nokkurra samverkandi þátta, en þvinguð frambeygð staða og hálstak sem hinn grunaði hafi haldið brotaþola í, er talin hafa leitt til mikillar minnkunar á öndunargetu sem leiddi til köfnunar.

Hæstiréttur birti ekki hina ástæðuna en samkvæmt krufningarskýrslunni greindist Arnar með svokallað æsingsóráðsheilkenni sem kemur almennt fram við handtökur að því er Stöð 2 greinir frá.

Viðkomandi gjarnan „með hita og óráð og í ruglástandi“

„Þetta er talið í dag vera eins konar sjúkdómsástand sem kemur fram undir þeim kringumstæðum að viðkomandi aðili er að veita viðnám eða mótspyrnu, streitast á móti, er í mjög æstu hugarástandi og berst um á hæl og hnakka,“ er haft eftir Sigurði Erni Hektorssyni, yfirlækni á fíknideild Landspítalans, í fréttinni.

„Þegar reynt er að leggja hömlur á viðkomandi með böndum eða handjárnum þá magnast ástandið og viðkomandi er gjarnan með hita og óráð og í ruglástandi. Síðan getur þetta magnast upp og þá veldur þetta á endanum öndunarstoppi, hjartastoppi og getur dregið fólk til dauða, en það gerir það ekki alltaf,“ segir Sigurður ennfremur.

Lögregla kveðst ekki geta tjáð sig um málið að öðru leyti en því að margir samverkandi þættir hafi valdið dauðanum. Lögreglurannsókn manndrápsmálsins er lokið og hefur málið verið sent héraðssaksóknara sem tekur ákvörðun um hvort ákæra verði gefin út í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert