Ókunnugt fólk kom færandi hendi

Hanyie fagnaði 12 ára afmælinu sínu með 250-300 manns í …
Hanyie fagnaði 12 ára afmælinu sínu með 250-300 manns í gær. mbl.is/Hanna

„Þetta gekk vonum framar og var alveg æðislegt. Það var mikill stuðningur og kærleikur,“ segir Guðmund­ur Karl Karls­son, einn skipu­leggj­enda 12 ára af­mæl­is­veislu hinn­ar af­gönsku Hanyie Maleki, sem haldin var í gær.

Hanyie á af­mæli í októ­ber og átti þá ósk heitasta halda afmælið sitt hér á landi, en sök­um þess að til stend­ur að senda hana og föður henn­ar úr landi var ákveðið að blása til veislunnar í gær. 

„Ég hitti hana í morgun og hún var rosalega ánægð og glöð,“ segir Guðmundur, en hann telur að alls hafi um 250-300 manns mætt í veisluna. Þá komu margir hverjir færandi hendi. 

Fékk iPhone og 600 þúsund

Hanyie fékk fjölda gjafa, bæði frá vinum og ókunnugum. „Hún fékk meira að segja iPhone,“ segir Guðmundur, og bætir við að Hanyie hafi verið í skýjunum með veisluna og velvild fólks. „Þetta var meira og minna ókunnugt fólk sem kom færandi hendi.“

Þá hafði gestum og öðrum verið bent á að þeir gætu lagt pening inn á reikning Guðmundar, þar sem ekki var hægt að stofna reikning í nafni Hanyie sjálfrar, og þannig gefa henni afmælisgjöf. Þegar mbl.is ræddi við Guðmund fyrir hádegi höfðu henni borist um 600 þúsund krónur. „Það munar auðvitað þvílíkt um það, sérstaklega þegar maður á ekki neitt,“ segir Guðmundur. „Það er klárt mál að þetta er peningur sem mun nýtast vel.“

Segir hann fólk á öllum aldri hafa komið í veisluna, og allir hafi verið með sömu skilaboð: að Hanyie og faðir hennar fái að vera áfram hér á landi. Þá hafi Hanyie verið eins og stórstjarna og ekki haft undan að heilsa og knúsa fólk, og taka með því myndir. „Eins feimin og hún er þá stóð hún sig ótrúlega vel,“ segir hann.

Guðmundur Karl og Hanyie í veislunni í gær.
Guðmundur Karl og Hanyie í veislunni í gær. mbl.is/Hanna

Enn stend­ur yfir und­ir­skrifta­söfn­un á veg­um Sol­ar­is, hjálp­ar­sam­taka fyr­ir hæl­is­leit­end­ur og flótta­fólk á Íslandi, þar sem þrýst er á Útlend­inga­stofn­un um að end­ur­skoða mál feðgin­anna. Ekki er komin dagsetning á brottvísun þeirra, en Guðmundur segir þau bíða kvíðin eftir símtali frá lögreglu.

„Við erum ekki búin að gefast upp og munum reyna að knýja það fram að þau fái að vera hér áfram,“ segir hann. Bendir hann á að Abrahim Maleki, faðir Hanyie, sé bæklaður eftir bílslys og sé því í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Þá sé Hanyie ekki með vegabréf í neinu landi og því án ríkisfangs, sem gefi henni meiri sérstöðu.

Haniye er fædd í flóttamannabúðum í Íran. Hún flúði frá Íran með föður sínum til Tyrklands, þaðan til Grikklands og svo Þýskalands og endaði hér á landi.

Í úrskurði kærunefndar útlendingamála kemur fram að feðginunum sé synjað um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar vegna Dyflinnarreglugerðarinnar, þrátt fyrir að nefndin telji „kæranda og barn hans vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu.“

Enn er hægt að gefa Hanyie af­mæl­is­gjöf með því að leggja inn á reikn­ing: 0513-14-406615 á kenni­tölu Guðmund­ar, 091082-5359.

Gleði var í afmælisveislu Hanyie.
Gleði var í afmælisveislu Hanyie. mbl.is/Hanna
mbl.is/Hanna
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert