John Snorri kominn aftur í grunnbúðir

John Snorri mættur aftur í grunnbúðir.
John Snorri mættur aftur í grunnbúðir. Mynd/Kári G. Schram

Fjallgöngugarpurinn John Snorri Sig­ur­jóns­son kom ásamt sherpanum Tsering rétt í þessu niður í grunnbúðir eftir að hafa gengið á fjallið Broad Peak sem alla jafna gengur undir heitinu K3. Toppaði hann fjallið klukkan fjögur í nótt, en þetta er þriðja fjallið sem er meira en átta þúsund metra hátt sem John Snorri toppar á fjórum mánuðum.

Hópurinn sem þeir fóru með á toppinn ákvað að hvílast í efstu búðum, en John Snorri og Tsering ákváðu að drífa sig niður í grunnbúðir að sögn Hjördísar Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra Lífs styrktarfélags.

Segir hún að með fjallgöngunni hafi verið sett tvö met. Enginn annar í heiminum nema John Snorri og sherpinn Tsering hafa farið á topp K2 og toppinn á Broad Peak á sjö dögum. Enginn hefur heldur áður farið frá grunnbúðum upp á Broad Peak og aftur niður á tveimur dögum.

Það var klukkan fjögur í nótt sem hópurinn komst á toppinn á fjallinu sem stundum er kallað K3 og er 8051 metra hátt. Það er nákvæmlega vika síðan John Snorri fór á toppinn á K2 og 80 dagar síðan hann kleif Lhotse fyrstur Íslendinga. Þar með hefur John Snorri farið á þrjú fjöll sem eru yfir 8000 metra hæð á 80 dögum. 

John Snorri hefur nú farið á þrjú fjöll sem eru …
John Snorri hefur nú farið á þrjú fjöll sem eru hærri en 8.000 metra há. Mynd/Kári G. Schram

Líklegt er að haldið verði af stað heim á leið úr grunnbúðunum á sunnudaginn, en ferðin tekur 4-5 daga. Þarf John Snorri að ganga 63 kílómetra vegalengd á skriðjöklinum Bolero. Þegar komið er af jöklinum er keyrt til bæjarins Skardu þaðan sem flogið er frá herflugvelli og til Islamabad. Þar verður John Snorri í 2-3 daga áður en hann heldur til Íslands ásamt Kára G. Schram kvikmyndatökumanni sem hefur fylgt honum eftir í nokkra mánuði. Miðað við þetta ferðalag koma þeir félagar til Íslands um miðjan ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert