Undrast leka á krufningarskýrslu

Héraðssaksóknari er með málið núna í sínum höndum og hefur …
Héraðssaksóknari er með málið núna í sínum höndum og hefur tíma til 24. ágúst til að ákveða hvort ákæra verður gefin út í málinu. mbl.is/Þórður

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, og Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari lýsa yfir undrun sinni á því að krufningarskýrsla réttarmeinafræðings í manndrápsmálinu í Mosfellsdal hafi borist fréttastofu Stöðvar 2.

Í frétt stöðvarinnar í gær var vísað í skýrsluna og greint frá því að svokallað æsingaróráðsheilkenni hafi verið önnur af ástæðunum fyrir andláti Arnars Jónssonar Aspar í júní síðastliðnum. 

„Það er mjög slæmt því þetta eru viðkvæmar persónuupplýsingar,“ segir Kolbrún og bætir við að hún hafi ekki hugmynd um hvaðan upplýsingarnar komu. Ekki hafi þær komið frá lögreglu og ákæruvaldi, að henni vitandi.  

Grímur tekur í sama streng. „Þetta kom mér á óvart, þetta er dálítið sérstakt."

Eftir helgi verður tekin skýrsla af einum einstaklingi vegna málsins en fyrir utan það er rannsókn lögreglunnar lokið. 

Héraðssaksóknari er með málið núna í sínum höndum og hefur tíma til 24. ágúst til að ákveða hvort ákæra verður gefin út í málinu.

Grímur Grímsson.
Grímur Grímsson. mbl.is/Júlíus

„Mjög sorglegt“

Lögmaður Sveins Gests Tryggvasonar, sem situr í gæsluvarðahaldi vegna gruns um aðild að dauða Arnars, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann ítrekar að umbjóðandi sinn hafi ávallt neitað sök í málinu.

„Umbjóðandi minn neitar því alfarið að hafa slegið til hans né að hafa tekið hann hálstaki. Hann vill ítreka að aldrei var veist að hinum látna, heldur var umbjóðandi minn ásamt öðrum sakborningum í málinu að verjast árás frá hinum látna, þar sem hann var í sturlunarástandi og undir miklum áhrifum fíkniefna líkt og fram hefur komið við rannsókn lögreglu,“ segir lögmaðurinn, Þorgils Þorgilsson, í yfirlýsingunni.

„Málið er í heild sinni mjög sorglegt og er umbjóðandi minn þess fullviss að niðurstaða hjá ákæruvaldi og eftir atvikum dómstóla mun leiða í ljós sannleikann sem er ekki í neinum takti við þá umfjöllun sem málið hefur áður fengið. Vonar umbjóðandi minn að fólk bíði með að fella dóma í máli þessu þar til málið hefur fengið eðlilega málsmeðferð hjá ákæruvaldi og eftir atvikum dómstólum,“ segir lögmaðurinn.

Hvorki Grímur né Kolbrún vildu tjá sig um yfirlýsinguna þegar eftir því var leitað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert