„Alltaf mikið þjóðarstolt eftir leikana“

Annie Mist og Katrín Tanja á heimsleikunum um helgina.
Annie Mist og Katrín Tanja á heimsleikunum um helgina. Ljósmynd/Crossfit Games

„Það er gaman að sjá hvað fólk á Íslandi er búið að fylgjast mikið með og hversu mikill stuðningurinn er á bak við okkur allar stelpurnar. Ég er alltaf svo stolt þegar ég er að keppa fyrir Ísland og eins þegar ég sé hvað stelpurnar frá Íslandi standa sig vel.“

Þetta segir Annie Mist Þórisdóttir, sem náði 3. sæti í Crossfit-heimsleikunum sem fram fóru í Bandaríkjunum um helgina, í samtali við mbl.is. „Maður er alltaf með mikið þjóðarstolt eftir heimsleikana og ég vil þakka fólkinu heima fyrir stuðninginn.“

Hún kveðst ánægð með árangurinn, en áður hefur hún unnið leikana tvisvar og tvisvar lent í 2. sæti.

Sló met með árangrinum í ár

„Hlutirnir hafa ekki gengið upp síðustu ár og ég hef einhvern veginn ekki náð að sýna hversu góð ég væri. Það hefur alltaf komið eitthvað upp á, ég fékk sýkingu, hitaslag [á heimsleikunum 2015], og ég hef orðið fyrir svo miklum vonbrigðum,“ segir hún.

„En nú í ár þá leið mér vel, ég var líkamlega og andlega tilbúin, og ég naut þess að vera að keppa. Jú, að sjálfsögðu hefði ég viljað enda í fyrsta sæti en ég gerði allt sem ég gat og þá verður maður bara að vera ánægður með árangurinn og ég er það. Svo er þetta í fimmta skipti sem ég kemst á pall og ég er mjög ánægð með það líka,“ segir Annie Mist, sem viðurkennir aðspurð að það hljóti að vera met í sögu heimsleikanna. 

„Ætli það ekki,“ segir hún og hlær.

Annie Mist hefur nú komist fimm sinnum á verðlaunapall leikanna.
Annie Mist hefur nú komist fimm sinnum á verðlaunapall leikanna. Ljósmynd/Crossfit Games

Aðeins ein hefð að loknu móti

Um leið og mótinu lauk nú um helgina var ekki spurning hvert förinni væri heitið.

„Eina hefðin sem við erum með er að við förum alltaf á Cheesecake Factory eftir keppni. Þetta er ekkert voðalega fínt sko,“ segir hún létt í bragði.

„Ég er með stóran hóp í kringum mig, mamma og pabbi hafa komið á öll mót og svo er ég með þjálfarana mína og þá sem hafa verið að aðstoða mig, við förum öll saman alltaf út að borða á Cheesecake Factory og njótum þess að vera saman.“

„Dóttir“-eftirnafnið orðið frægt úti

Spurð hvort keppnin hafi harðnað síðustu ár segir hún að svo sé ekki endilega. 

„En við höfum öll orðið betri og keppnin þannig þróast með okkur. Þyngdirnar hafa kannski orðið meiri og vegalengdirnar aðeins lengri og prófin aðeins öðruvísi. En mér líður alltaf eftir helgina eins og allt hafi verið prófað sem á að prófa, til að sýna fram á hver er í besta forminu.“

Auk árangurs Annie voru Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir og Katrín Tanja Davíðsdóttir í 4. og 5. sæti leikanna, á sama tíma og Þuríður Erla Helga­dótt­ir náði 18. sætinu. Stöðugur og góður árangur Íslendinga á mótinu vekur athygli.

„Ég myndi segja að þetta „dóttir“-eftirnafn væri orðið ansi frægt hérna úti og í Crossfit-heiminum. Það er náttúrulega rosalega flott hvað við erum komnar með margar medalíur, ég er komin með fjórar, Katrín Tanja tvær og Ragnheiður Sara tvær, þannig við erum með átta medalíur samtals frá Íslandi í kvennaflokki. Ég held að það sé ekkert annað land sem státar af því.“

Ekkert sem hrjáir mikið

Hvenær er svo næsta mót?

„Vá, ég veit það ekki. Ég passa mig að skipuleggja aldrei fram yfir leikana, því maður veit aldrei hvernig manni muni líða eftir á og hvað maður verður reiðubúinn að takast á við. Eftir svona viku byrja ég að skipuleggja aðeins meira fram í tímann en ég efast um að ég muni keppa aftur fyrr en kannski einhvern tímann í nóvember, desember.

En mér líður best í líkamanum þetta ár, síðan ég byrjaði að keppa, hugsa ég. Ég er með harðsperrur en það er ekkert ónýtt eða vont og ekkert sem hrjáir mig mikið. Ég er bara í nokkuð góðu standi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert